Brynjar Elefsen tekinn við sölusviði BL

Brynjar Elefsen
Brynjar Elefsen

Brynjar Elefsen Óskarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sölusviðs BL ehf. við Sævarhöfða og tók hann við af Skúla Kristófer Skúlasyni sem lét af störfum í júní.

Brynjar hefur gegnt starfi vörumerkjastjóra fyrirtækisins frá árinu 2014. Hann er með BS próf í markaðs- og viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og er að ljúka MS-námi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst. Brynjar, sem er Skagfirðingur að uppruna, fæddur 1979, hefur langa reynslu af störfum í bílgreininni og starfaði m.a. um sex ára skeið hjá bílaumboðinu Heklu.

„BL býr yfir mjög sterkri liðsheild sem hefur náð frábærum árangri á undanförnum árum. Það eru í senn krefjandi og jafnframt spennandi tímar á bílamarkaðnum í heild hér innanlands og um leið mikil og hröð þróun sem á sér stað meðal helstu bílaframleiðenda heims. Við sem söluaðilar en ekki síður almennir neytendur komum til með að upplifa miklar og spennandi tæknibreytingar í bílum á næstu fimm árum. BL er með umboð fyrir tíu bíltegundir og það gefur því augaleið að það er mjög mikið að gera við að fylgjast með þessari spennandi þróun hjá framleiðendunum og kynna þær fyrir viðskiptavinum okkar. Við munum byggja áfram á þeim góða árangri sem starfsfólk BL hefur náð á undanförnum árum, m.a. með því að standa vörð áframhaldandi góða þjónustu, viðhalda góðri liðsheild og tryggja það að hið fjölbreytta úrval bíla sem BL er með umboð fyrir séu samkeppnisfærir og uppfylli sem best þarfir viðskiptavina,“ segir Brynjar í tilkynningu.

mbl.is