Nýr rafmagnaður Kia e-Soul frumsýndur

Nýi rafdrifni Kia e-Soul verður frumsýndur hjá Kia á laugardaginn …
Nýi rafdrifni Kia e-Soul verður frumsýndur hjá Kia á laugardaginn kemur.

Bílaumboðið Askja frumsýnir nýjan Kia e-Soul, sem er hreinn rafbíll, í Kia húsinu að Krókhálsi 13 nk. laugardag, 17.ágúst, klukkan 12-16.

Mikil eftirvænting hefur ríkt eftir komu bílsins eftir að hann var fyrst kynntur á alþjóðlegu bílasýningunni í Los Angeles í fyrravetur, segir í tilkynningu. Þar segir að ný kynslóð e-Soul sé mjög breytt í hönnun sem og aksturseiginleikum frá núverandi Soul EV.

Eins og forverinn er e-Soul fjölnotabíll og er hábyggðari en fólksbílar af svipaðri stærð sem þýðir þægilegt er að ganga inn og út um hann þar sem sætin eru há. Innanrýmið er vandað og nútímalegt og búið öllum helsta tæknibúnaði sem völ er á frá Kia. Hátæknivæddur 10,25 tommu skjár miðlar öllum upplýsingum um akstur og afþreyingu til ökumanns og farþega.

Nýr e-Soul er aflmeiri og langdrægari en forverinn auk þess sem aksturseiginleikar bílsins hafa verið bættir enn frekar. Rafmótorinn skilar bílnum 204 hestöflum og hann er aðeins 7,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Drægið er mikið eða alls 452 km miðað við hinn nýja WLTP staðal.


mbl.is