Porsche sportbílar sýndir á laugardag

Nýjasta kynslóð 911 er mætt til landsins og hægt að …
Nýjasta kynslóð 911 er mætt til landsins og hægt að sjá með eigin augum á laugardag.

Mikið verður um dýrðir í nýja Porsche-salnum á Krókhálsi 9 á laugardag, 17. ágúst, en þá efnir Bílabúð Benna til árlegrar sportbílasýningar.

Að vanda hefur mikið verið lagt í viðburðinn og nokkrir bílanna sérfluttir til landsins, þar á meðal glæný eintök af öflugustu sportbílunum frá Porsche. Fá gestir að berja augum mörg þekktustu nöfnin í sportbílaheiminum, s.s. 718 Boxter GTS, 718 Cayman T, 911 C2 S, 911 C4 S, Porsche Macan II S og Cayenne Turbo.

Verða þessir bílar allir í salnum á Krókhálsi á laugardag og sýningarsvæðið utandyra skreytt með nokkrum fágætum eldri Porsche gæðingum sem markað hafa spor í sportbílasöguna.

Í tilkynningu kemur fram að eftir sýninguna munu flestir af nýju sportbílunum verða teknir til kostanna á hinum árlega Porsche Roadshow viðburði, sem haldin er á Kvartmílubrautinni í Hafnarfirði frá 18. – 23. ágúst. Þeir sem skrá sig í Porsche Roadshow er gefinn kostur á að aka þessum óviðjafnanlegu sportbílum, í sínu náttúrulega umhverfi, undir leiðsögn sérfræðinga.

Sportbílasýning Porsche, á Krókhálsi 9, stendur yfir frá kl. 12 til 16 á laugardag og allir velkomnir.

mbl.is