Hreinn rafbíll frá Mercedes-Benz

Nýi EQC-rafbíllinn verur frumsýndur næstkomandi laugardag.
Nýi EQC-rafbíllinn verur frumsýndur næstkomandi laugardag.

„Beðið hefur verið eftir hinum nýja rafbíl Mercedes-Benz EQC með mikilli eftirvæntingu í talsverðan tíma en biðin er nú loks á enda því þessi tæknivæddi sportjeppi verður frumsýndur í Bílaumboðinu Öskju nk. laugardag kl. 10-16.“

Svo hljóða upphafsorð tilkynningar frá Öskju um frumsýninguna. EQC er fyrsti hreini rafbíllinn sem Mercedes-Benz framleiðir en þessi fjórhjóladrifni sportjeppi er með allt að 417 km drægi samkvæmt WLTP-staðli og býr yfir tæknilausnum framtíðarinnar sem tryggja afar góða upplifun í akstri.

EQC er með rafmótora sem skila bílnum miklu afli eða alls 408 hestöflum. Hámarkstog er 760 Nm og dráttargeta sportjeppans er allt að 1.800 kg. Bíllinn er aðeins 5,1 sekúndu í hundraðið. „EQC er að sjálfsögðu búinn hinu tæknivædda 4MATIC fjórhjóladrifi sem hentar einstaklega vel fyrir íslenskar aðstæður,“ segir í tilkynningunni.

Hrein form, látlausar línur og framsækin hönnun eru aðalsmerki EQC að innan sem utan. Í innanrými bílsins er vandað til verka hvað varðar búnað, þægindi og efnisval. Bíllinn er búinn hinu margrómaða MBUX-margmiðlunarkerfi og er með stóru stafrænu mælaborði. EQC er búinn allra nýjustu aksturs- og öryggiskerfum frá Mercedes-Benz. Þrjár útfærslur verða í boði af EQC með mismunandi búnaði og munu þær kosta frá tæpum 9,3 til 11,6 milljóna króna.
 
Mercedes-Benz stofnaði árið 2016 nýtt vörumerki innan fyrirtækisins sem ber heitið EQ og vísar í gildi vörumerkisins „Emotion and Intelligence“. EQ mun standa fyrir framleiðslu hreinna rafbíla Mercedes-Benz. Þýski lúxusbílaframleiðandinn ætlar sér að vera kominn með allt að tíu útgáfur rafbíla árið 2022.

Mercedes-Benz er einnig að koma fram með úrval tengiltvinnbíla undir heitinu EQ Power. Þetta er þriðja kynslóð tengiltvinnbíla af gerðunum A-Class, B-Class, C-Class, E-Class og S-Class með meiri drægni og tækni en áður. Fleiri gerðir eru síðan væntanlegar í EQ Power-deildinni m.a. sportjepparnir GLC og GLE.

mbl.is