Ísland fær 20 eintök af 1886

Sportjeppinn Mercedes-Benz EQC.
Sportjeppinn Mercedes-Benz EQC.

Mercedes-Benz hefur framleitt takmarkað upplag af sérstakri viðhafnarútgáfu af nýja sportjeppanum EQC, sem er fyrsti hreini rafbíll þýska lúxusbílaframleiðandans.

Einungis 1886 eintök voru sett í framleiðslu af viðhafnarútgáfunni en af þeim fékk Bílaumboðið Askja, umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi, alls 20 eintök.

Allir bílarnir voru seldir hjá Bílaumboðinu Öskju áður en þeir komu til Íslands og eru nú komnir á götuna hér á landi. Bílarnir eru allir ríkulega búnir.

„Ísland er einn fyrsti markaðurinn í heiminum sem fær viðhafnarútgáfuna af EQC bílnum. Auk þess er Ísland að fá hæsta hlutfall af viðhafnarútgáfunni miðað við heildarfjölda bíla sem hver markaður fær. Hvort tveggja er afar ánægjulegt og við erum stolt af því að geta boðið þessa glæsilegu viðhafnarútgáfu 1886 af EQC til okkar viðskiptavina hér á landi. 1886 er tilvitnun í árið sem Mercedes-Benz var stofnað en fyrirtækið er elsti bílaframleiðandi heims,“ segir Jónas Kári Eiríksson, vörustjóri Mercedes-Benz á Íslandi, í tilkynningu.

Það er mjög mikið um að vera í EQ línu Mercedes-Benz. Bílsmiðurinn hyggst vera komið með yfir 10 rafbíla á markað árið 2022 og yfir 30 bíla þegar tekið er tillit til tengiltvinnbíla. Askja er nú þegar komin með 10 gerðir tengiltvinnbíla frá Mercedes-Benz til afhendingar strax auk rafbílsins EQC. Til viðbótar mun Mercedes-Benz síðan koma með 100% rafdrifna bíla úr smiðju AMG á næstu árum.

mbl.is