Tryggur eigandi Land Cruiser í 18 ár

Nýjasti Land Cruiser Tryggva verður á sögusýningu hjá Toyota í …
Nýjasti Land Cruiser Tryggva verður á sögusýningu hjá Toyota í Kauptúni í Garðabæ á laugardaginn kemur. mbl.is/Árni Sæberg

Toyota Land Cruiser-jeppinn hefur lengi verið mikils metinn á Íslandi og draumabíll margra sem þurfa að komast leiðar sinnar við misjafnar aðstæður. Tryggvi V. Traustason, framkvæmdastjóri Stýrivélaþjónustunnar, hefur verið tryggur eigandi Land Cruiser frá 2001.

Sá nýjasti í hans eigu verður á sögusýningu hjá Toyota í Kauptúni í Garðabæ á laugardaginn kemur.

„Ég er búinn að eiga þá marga og á tvo Land Cruiser eins og er,“ sagði Tryggvi í Morgunblaðinu í dag. „Ég á tæplega ársgamlan Land Cruiser 150 á 35 tommu dekkjum sem er á sýningunni. Svo á ég fjallajeppa, Land Cruiser 100 á 46 tommu dekkjum.“ En hvað er hann búinn að eiga marga Land Cruisera?

Níu Land Cruiser-bílar

„Ég er búinn að eiga 80-gerðina, 90-gerðina, þrjá af 100-gerðinni, 120-gerðina, 150-gerðina og tvo 200-Cruisera, samtals níu bíla. Svo hef ég átt tvo Toyota Hilux þar að auki. Ég hef endurnýjað á nokkurra ára fresti, oft þegar kemur nýtt útlit eða breyttur búnaður,“ sagði Tryggvi. „Fyrsti Cruiserinn minn var af 90-gerðinni og ég keypti hann nýjan árið 2001. Land Cruiser-bílar hafa reynst mér alveg gríðarlega vel. Þetta eru traustir og sterkbyggðir jeppar með háu og lágu drifi, möguleikum sem við jeppakallar viljum hafa. Það er gott að hafa lága drifið og læsingarnar, til dæmis þegar maður fer yfir ár. Ég er líka ánægður með strákana í þjónustunni hjá umboðinu þá sjaldan eitthvað hefur komið upp á. Ég er vélvirki og hef séð um bílana að mestu leyti sjálfur, en ef eitthvað hefur komið upp á hefur þjónustan verið prýðileg.“ Tryggvi segir að hann hafi stundum hlaupið út undan sér og prófað aðrar sortir með Toyotunum, en alltaf haldið tryggð við Land Cruiser.

Fæst við jeppabreytingar

Fyrirtæki Tryggva, Stýrivélaþjónustan, fæst meðal annars við jeppabreytingar og selur ýmsan búnað í fjallajeppa.

„Þetta spannst út frá jeppadellunni minni og svo spurðist þetta út. Þetta er ekki mín aðalvinna en við erum með tvær lyftur og erum svolítið í breytingum, litlum og stórum. Fjallajeppar eru með aukalæsingar og aukamillikassa sem kallaður er skriðgír og úrhleypibúnaði fyrir dekkin. Þetta hefur bara gengið vel,“ sagði Tryggvi. Hann er í Ferðaklúbbnum 4X4 og Útivist og var um tíma fararstjóri hjá þeim í jeppaferðum. „Ég fer mikið á fjöll þótt ég sé farinn að velja betra veður eftir öll þessi ár. Áður fyrr fór maður í öllum veðrum,“ sagði Tryggvi.

Stórar breytingar eru dýrar

Mjög hefur dregið úr því að menn láti gera stórar breytingar á jeppum sínum. Tryggvi segir að það séu helst björgunarsveitir sem láti gera það í dag. Hann er nýbúinn að breyta Land Cruiser 150-jeppa fyrir 42 tommu dekk fyrir björgunarsveit. En hvað hefur breyst?

„Ætli þetta sé ekki orðið svo dýrt? Ungir strákar sem nenna því helst að fara á fjöll kaupa sér gamla bíla til að komast. Svo eru einhverjir miðaldra sem kannski hafa efni á þessu. Björgunarsveitirnar fá niðurfellingu á ýmsum gjöldum, sem hjálpar þeim að láta breyta,“ sagði Tryggvi.

Minni vélar – minni losun

Bílaframleiðendur hafa lagað sig að hertum mengunarkröfum með vélum sem losa minna. Vörugjöld af ökutækjum taka einnig mið af losun.

„Mér finnst þetta vera afturför á vissan hátt. Það sparast ekkert endilega í eyðslu með minni vélum. Stærri vélarnar vinna léttar. Framleiðendur hafa sett 8-10 gíra fjölskiptigírkassa til að vega þetta upp en vélin er jafn lítil fyrir það. Lítið breyttir eða óbreyttir jeppar standa þó alveg fyrir sínu þótt vélarnar hafi minnkað,“ sagði Tryggvi.

Tíu milljón Land Cruiser-bílar

Tíu milljónasti Toyota Land Cruiser-jeppinn rann af færibandinu hinn 31. ágúst síðastliðinn. Af því tilefni er efnt til Sögusýningar Land Cruiser laugardaginn 12. október hjá Toyota í Kauptúni.

Frá því að fyrstu Land Cruiser-bílarnir komu til Íslands hafa 12.779 bílar af þeirri tegund verið skráðir hér. Það vekur athygli að af þeim eru 10.719 enn í notkun eða 84% af öllum Land Cruiser-bílum sem hafa verið skráðir á Íslandi. Land Cruiser hefur lengi verið einn vinsælasti bíllinn á Íslandi enda er hann útbúinn til að takast á við krefjandi aðstæður og erfið skilyrði eins og oft mæta okkur Íslendingum.

Fyrsti bíllinn í Land Cruiser-fjölskyldunni leit dagsins ljós 1. ágúst 1951 og hét Jeep BJ. Hann var smíðaður fyrir Japansmarkað. Útflutningur hófst með tilkomu Land Cruiser 20 fjórum árum síðar. Fyrst voru 100 bílar fluttir út á ári en 1965 voru þeir orðnir 100.000. Um 400.000 Land Cruiser-bílar eru nú seldir á hverju ári í 170 löndum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: