Fyrirskipað að innkalla hundruð þúsunda bíla

Sprinter sendibíll.
Sprinter sendibíll.

Þýska samgönguráðið (KBA), æðsta samgöngustofnun Þýskalands, hefur fyrirskipað Daimler að innkalla hundruð þúsunda dísilbíla fyrir brot á reglum um losun gróðurhúsalofts í útblæstri bílanna.

„Við giskum á að um sex stafa tölu sé að ræða og við munum eiga samstarf við yfirvöld um innköllunina,“ sagði talsmaður Daimler við AFP-fréttastofuna.

Þetta er ekki fyrsta  innköllunin að fyrirmælum KBA á síðustu árum en Daimler hefur þráfastlega haldið sig við þann keip að það hafi átt aðild að svonefndu dísilhneyksli sem braust fram árið 2015.

Innköllunin nú nær til að minnsta kosti 260.000 Sprinter sendibíla sem framleiddir voru fyrir júní 2016.

KBA hefur grunað þýska bílsmiðinn um að hafa komið leynilegum forritum fyrir í bílunum íi þeim tilgangi að villa um fyrir mengunarmælingum við skoðun bílanna.

Fram til þessa hefur Daimler innkallað um 700.000 bíla, þar af tæplega 300.000 í Þýskalandi.

Rannsóknin á dísilhneykslinu hófst árið 2015 þegar Volkswagen viðurkenndi að hafa komið blekkingarforritum fyrir í um 11 milljónum dísilbíla. Voru 8,5 milljónir bílanna seldar í Evrópu og um 600.000 í Bandaríkjunum.

mbl.is