Huracan í sérflokki hjá Lamborghini

Lamborghini Huracan Evo Spyder á bílasýningunni í Frankfurt í haust.
Lamborghini Huracan Evo Spyder á bílasýningunni í Frankfurt í haust. AFP

Ítalski lúxus- og ofursportbílasmiðurinn Lamborghini hefur átt einstakri velgengi að fagna síðustu misserin. Nú er sportbíllinn Huracan kominn í sögubækurnar.

Þann 14. október sl. rann Huracan með raðnúmerið 14.022 af færiböndum bílsmiðjunnar í Sant’Agata Bolognese. Með því varð hann söluhæsti bíll Lamborghini með V10 vél undir húddinu.

Fyrra metið átti Lamborghini Gallardo sem smíðaður var í samtals 14.022 eintökum á árunum 2003 til 2013. Huracan er nú kominn fram úr eftir aðeins fimm ár í framleiðslu.  Huracan númer 14.022 er grá EVO-útgáfa og var hann seldur til Suður-Kóreu. Ætla má að verð bílsins hingað til lands yrði vart undir 40 milljónum króna því í Noregi kostar hann 42 milljónir á núverandi gengi.

Fyrir utan metsölu Huracan hefur Lamborghini aldrei selt fleiri bíla en í ár. Fyrstu sex mánuði ársins voru þeir orðnir 4.553 talsins  sem er tvöfalt meira en á sama tíma í fyrra. Í þessu efni munar mest um jeppann Urus sem er tæplega 60% af sölunni í ár. Búist er við að sala Urus taki kipp þegar tvinnútgáfa af bílnum kemur á markað seinna í ár.

Þetta verður fyrsti bíll Lamborghini sem nýtir rafmagn til aksturs. Aflrásin er fengin frá Porsche, en ásamt rafmótor  er í henni að finna fjögurra lítra V8-vél. Sameiginlegt afl vélar og mótors er 680 hestöfl og upptakið 850 Nm. Aflið verður með öðrum orðum 20 hestum meira en í venjulegum Urus sem er knúinn bensínvél með forþjöppu.

Lamborghini Huracan Evo Spyder á bílasýningunni í Frankfurt í haust.
Lamborghini Huracan Evo Spyder á bílasýningunni í Frankfurt í haust. AFP
mbl.is