Röng vinnubrögð geta skert öryggi

Verkstæðið er eitt hið fullkomnasta á sviði tjónaviðgerða á bílum …
Verkstæðið er eitt hið fullkomnasta á sviði tjónaviðgerða á bílum sem byggðir eru að hluta til úr áli og/eða koltrefjum.

BL ehf., umboðsaðili Jaguar Land Rover hér á landi, rekur eitt fullkomnasta verkstæði landsins á sviði tjónaviðgerða á bílum sem byggðir eru að hluta til úr áli og/eða koltrefjum.

Raunar starfrækir BL einu vottuðu tjónaviðgerðarþjónustuna fyrir Jaguar Land Rover í Evrópu sem ekki er í eigu framleiðandans. BL er jafnframt eini vottaði viðgerðaraðilinn hér á landi sem er í sambærilegu vottunarferli hjá BMW í Þýskalandi, en sumar gerðir BMW eru að miklu leyti smíðaðar úr koltrefjum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Undanfarin misseri hafa staðið yfir umfangsmiklar uppfærslur og skipulagsbreytingar á verkstæði BL fyrir réttingu og málun og segir Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs BL, að undirbúningsferlið fyrir vottunina hafi verið langt og kostnaðarsamt.

„Það má segja að verkstæði réttingar og málunar hafi verið endurskipulagt frá grunni og í samræmi við kröfulýsingu Jaguar Land Rover varðandi tækjabúnað og þjálfun bifreiðasmiða auk þess sem allir verkferlar voru endurskipulagðir með aðstoð Autoskills sem sérhæfir sig í gæðamálum tjónaverkstæða,“ segir Ingþór. Að hans sögn var verkefnið nauðsynlegt til að tryggja rétt vinnubrögð í meðferð áls og koltrefja sem eru gjörólík vinnu í stálviðgerðum. „Það er alls ekki sama hvernig gert er við ál og koltrefjar eigi að tryggja áframhaldandi sömu gæði og öryggi bílanna eftir tjónaviðgerð eins og skylt er. Við höfum því miður séð dæmi um bíla þar sem búið var að skerða verulega burðarvirki og þar með öryggi nýlegra bíla.“

Árleg úttekt

BL er umboðsaðili tíu framleiðenda hér á landi og eftir breytingarnar fara allar álviðgerðir fram í sérhæfðu og aðgreindu rými á verkstæðinu þar sem eingöngu eru notuð ákveðin verkfæri og tæki sem ekki eru notuð annars staðar. Er því óheimilt að koma þangað með verkfæri eða tæki sem tilheyra öðrum starfseiningum verkstæðisins eða fara þaðan með verkfæri eða tæki til nota annars staðar á verkstæðinu. Framvegis mun fulltrúi frá Jaguar Land Rover heimsækja verkstæði BL árlega til að taka út starfsemina og ganga úr skugga um að réttum verkferlum sé fylgt í samræmi við vottun framleiðandans.

Símenntun hluti vottunarinnar

Nám í viðgerðum á áli og koltrefjum er ekki í boði hérlendis og sækir starfsfólk BL sem vinnur að viðhaldi, viðgerðum og málun bíla Jaguar Land Rover því reglulega áskylda tækniþjálfun erlendis til þess að fá eða viðhalda vottun framleiðandans. Forsenda vottunarinnar er jafnframt krafa um árlega símenntun sem einnig er sótt utan landsteinanna enda veitir hún jafnframt heimild til að starfa á hvaða verkstæði Jaguar Land Rover sem er í Evrópu og raunar hvar sem er í heiminum að tilskyldri heimild til atvinnuþátttöku í einstökum löndum.

mbl.is