Fjórtán fengu styrk fyrir hleðslustöðvar

Húsfélög í Reykjavík geta fengið styrki til uppsetningar rafhleðslustöðva.
Húsfélög í Reykjavík geta fengið styrki til uppsetningar rafhleðslustöðva. mbl.is/​Hari

Alls var um 19,5 milljónum króna úthlutað úr styrktarsjóði til fjórtán húsfélaga í Reykjavík á síðasta ári vegna uppsetningar hleðslubúnaðar fyrir rafbíla á lóðum fjöleignarhúsa.

Um er að ræða sjóð á vegum Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur sem liðka á fyrir stórfelldri uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Hvor aðili um sig leggur 20 milljónir á ári til sjóðsins í þrjú ár, alls 120 milljónir króna.

Þetta var fyrsta árið sem úthlutað var úr sjóðnum. Samkvæmt upplýsingum frá Magnúsi A. Sveinbjörnssyni á skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg bárust alls 19 umsóknir til sjóðsins árið 2019. Fjórtán þeirra voru samþykktar en fimm var hafnað þar sem þær uppfylltu ekki skilyrði fyrir styrkveitingu. Dæmi eru um að umsóknir hafi ekki uppfyllt skilyrði reglna um styrkveitingar þar sem bílastæðin eru í einkaeigu eða í eigu leigufélaga. Styrkirnir eru greiddir út eftir að framkvæmdum lýkur hjá viðkomandi húsfélagi.

Fjallað er um sjóðinn á vefsíðu verkfræðistofunnar Verkís og segir þar að mörg húsfélög hafi leitað til stofunnar á síðasta ári vegna aðstoðar við gerð umsókna. Þar segir ennfremur að lægsta upphæðin sem úthlutað hefur verið til húsfélags sé 775.726 krónur. Hæsta upphæðin er 1.500.000 krónur, sem er jafnframt hámarksupphæð til hvers húsfélags. Greidd upphæð skal ekki nema meira en 67% af heildarkostnaði verksins með virðisaukaskatti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: