Skoða mögulegan galla í Tesla-bifreiðum

Bílar Tesla juku hraðann án þess að ökumaðurinn gæfi þeim …
Bílar Tesla juku hraðann án þess að ökumaðurinn gæfi þeim inn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bandarísk samgönguyfirvöld eru með til skoðunar ábendingar um meintan galla í bifreiðum rafbílaframleiðandans Tesla.

Að því er Wall Street Journal greinir frá bárust 127 ábendingar vegna atvika sem leiddu til árekstra í 110 skipti og til líkamstjóns á fólki í 52 tilvikum, þar sem bílar Tesla eiga að hafa aukið hraðann án þess að ökumaðurinn gæfi þeim inn.

Þau mál sem stjórnvöld rannsaka ná til allra þriggja gerða Tesla-bifreiða sem eru á markaði í dag og ef búnaður bílanna reynist gallaður er hugsanlegt að þurfi að innkalla u.þ.b. 500.000 bifreiðar, eða nærri alla þá bíla sem Tesla hefur selt í Bandaríkjunum frá því stallbakurinn Model S kom á markað árið 2012.

Tesla svaraði ekki fyrirspurn WSJ vegna málsins. Mörg þeirra atvika sem verið er að skoða áttu sér stað þegar ökumenn voru að leggja bílum sínum sem svo tóku óvænt á rás, oft í gegnum vegg, upp á gangstéttarkant eða utan í ljósastaur. Ku greining Tesla á sumum þessara atvika hafa leitt í ljós að ökumenn gáfu bílunum inn, samkvæmt þeim akstursgögnum sem tölvan í bílunum vistar. Bandarísk rannsókn frá 1989 leiddi í ljós að í miklum meirihluta tilvika mátti rekja óvænta hröðun bifreiða til þess að ökumenn rugluðust á bensíngjöfinni og bremsunni. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: