Rafbílar til að gefa gaum 2020

Rafbíllinn Mustang Mach-E.
Rafbíllinn Mustang Mach-E.

Bílaframleiðendur eru að fikra sig meir og meir inn í þróun og smíði rafbíla. Þegar á nýhöfnu árinu liggur fyrir að nýjungar munu bætast í rafbílaflóruna. Hér á eftir eru nefnd sex ný rafbílamódel sem vert verður að fylgjast með á árinu.

Fyrsti hreini rafbíll Ford, Mustang Mach-E, hefur komið inn á markaðinn með látum. Kaupendur standa í biðröðum eftir honum. Þeir hafa að mestu leyti pantað langdrægustu útgáfuna. Forvitnilegt verður að sjá hvaða dóma Mustang Mach-E fær þegar hann kemur á götuna síðar á árinu.

Aston Martin Rapide E þótti efnilegur og lofa góðu þegar hann var kynntur til sögunnar. Síðustu dagana virðist hins vegar sem Aston Margin hafi hætt við framleiðslu hans, a.m.k. í bili, vegna fjárhagsörðugleika fyrirtækisins. Þetta hefur ekki verið endanlega staðfest en samt virðist sem bíða þurfi eitthvað lengur eftir rafbíl frá Aston Martin. Til stóð að framleiða einungis 155 eintök af Rapide E. Það er mikil áskorun fyrir bílsmiðinn annálaða að framleiða rafbíl sem hæfir James Bond.

Polestar 1 tengiltvinnbíllinn, afsprengi Volvo, hefur þegar sett mark sitt á rafbílamarkaðinn. Hermt er að ný útgáfa hreins rafbíls sé í pípunum, Polestar 2. Kemur í ljós síðar á árinu hvort sá bíll verði ekki minni að getu. Verði hann verðlagður hagstæðar þykja líkur á að hann fá ekki lakari viðtökur.

Fyrsti hreini rafbíll Volvo verður byggður á borgarjepplingnum XC40 og hefur hlotið nafnið XC40 Recharge. Fróðlegt verður að sjá hvernig hann kemur út í sölu í samanburði við bíla Volvo með sprengivél.

Tesla Model Y er mikilvægur bíll fyrir kaliforníska bílsmiðinn. Búist er við að fyrstu eintökin verði afhent kaupendum í byrjun febrúar, eftir um hálfan mánuð. Model 3 átti í miklum örðugleikum til að byrja með en hefur síðan öðlast feiknavinsældir. Spurning er hvaða áhrif Model Y hefur á sölu forvera síns.

Loks skal nefna Porsche Taycan sem hefur hlotið mjög góðar viðtökur í útgáfunni Mission E frá því hann kom á markað í vetur. Spurningin verður hvaða framförum Porsche nær með rafaflrás sinni. Mun hún valda straumhvörfum í rafbílavæðingunni?

agas@mbl.is

Óvissa ríkir um smíði rafbílsins Aston Martin Rapide E
Óvissa ríkir um smíði rafbílsins Aston Martin Rapide E
Rafbíllinn Polestar 2.
Rafbíllinn Polestar 2.
Rafbíllinn Volvo XC40 Recharge
Rafbíllinn Volvo XC40 Recharge
Tesla Model Y
Tesla Model Y
Rafbíllinn Porsche Taycan
Rafbíllinn Porsche Taycan
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: