Sátu pikkföst á leið heim í jólafrí

Myndin sýnir jarðýtu við snjómokstur á Reykjanesi 1952. Engar myndir …
Myndin sýnir jarðýtu við snjómokstur á Reykjanesi 1952. Engar myndir virðast til af jóla-mokstrinum 1955. Jarðýtan sem Pálmi notaði var töluvert stærri en sú sem sjá má á myndinni, fengin að láni hjá bandaríska hernum. Pálmi ruddi leiðina til Reykjavíkur og aftur til baka. Ljósmynd/Ljósmyndasafn Reykjanesbæjar

Liðin eru 65 ár síðan Pálmi Jónsson var að snæða kvöldverð með kollegum sínum í mötuneyti starfsmanna á Keflavíkurflugvelli þegar að borðinu kom Guðmundur Einarsson, sem þá var framkvæmdastjóri Sameinaðra verktaka á flugvallarsvæðinu, sem síðar varð hluti af Íslenskum aðalverktökum. Var komið í óefni því vonskuveður var á Reykjanesinu og fannfergi, og sátu fjölmargir bílar fastir á Keflavíkurveginum. Guðmundur þurfti vaskan mann sem gæti stýrt jarðýtu í gegnum mannhæðarháa skaflana, losað fasta bíla og rutt þeim leið til Reykjavíkur.

Pálmi, sem í dag býr með konu sinni Eddu Vilhelmsdóttur á Sauðárkróki, bauð fram krafta sína þótt hann væri lúinn eftir langan vinnudag í malarnámu verktakanna í Stapafelli. „Mér reiknast til að þegar þetta var allt afstaðið hafi ég verið vakandi í um 54 klukkustundir og er það ekki nokkuð sem ég hef áhuga á að reyna aftur,“ segir Pálmi.

Hann vill ekki gera of mikið úr björguninni en sumir telja að það hefði getað endað með ósköpum ef enginn hefði komið til bjargar þeim fjölmörgu ökumönnum sem sátu fastir á veginum. „Þetta var á Þorláksmessu 1955 og margir þeirra sem unnu á varnarliðssvæðinu þurftu að komast til sinna heima í Reykjavík til að fagna jólunum. Vegagerðin hafði aftur á móti ákveðið að loka veginum frekar en að hreinsa hann, og búið var að leggja vinnuvélum Vegagerðarinnar þvert á veginum til að aftra bílum för,“ segir Pálmi söguna.

Smám saman bættist í halarófuna

Til að tryggja að verkið gengi vel fyrir sig fengu Sameinaðir verktakar að láni stóra og mikla jarðýtu sem var í eigu varnarliðsins, af gerðinni Caterpillar D8, og fengu jafnframt leyfi vegamálastjóra til að byrja að moka. Pálmi segir her-jarðýtuna hafa hentað vel til verksins enda hægt að halla tönninni á henni til hliðar en ýturnar í malarnámunni voru minni og með beina tönn.

Pálmi sá einn um verkið og enginn leysti hann af, en moksturinn tók sinn tíma og fylgdi mötuneytisbíll á eftir með hressingu handa honum og öðru fólki í halarófunni. Á þessum tíma var vegurinn út í Keflavík malarvegur sem hlykkjaðist um hraunið og var á köflum niðurgrafinn svo að snjórinn safnaðist auðveldlega upp. Í gömlum veðurgögnum má sjá að gert hafði mikla snjókomu og skafrenning í aðdraganda Þorláksmessu en svo tók veðrið að skána og því fennti ekki aftur ofan í veginn eftir að Pálmi hafði rutt snjónum burt.

Moksturinn tók tímann sinn og reiknast Pálma til að hann hafi náð að ryðja um 5-6 km kafla á klukkustund og var því ekki kominn til Hafnarfjarðar fyrr en um miðja nótt. Framan af þurfti að gera hlé á mokstrinum endrum og sinnum til að losa fasta bíla og segir Pálmi að þeir sem náðu að komast lengst hafi verið komnir inn að Vogum. „Við höfðum keðju meðferðis og festum hana utan um dráttarkúlu, hásingu eða hvað annað sem óhætt væri að taka í, og festum hinn endann við ýtuna sem ég bakkaði til að draga bílana úr sköflunum.“

Báðu um aðstoð yfir talstöð

Morgunblaðið fjallaði um afrekið í grein 24. desember og segir þar að bílalestin hafi verið um 13 klukkustundir að komast frá Keflavíkurflugvelli í bæinn, og fylgdu um 100 bílar í halarófu á eftir jarðýtunni. Höfðu 15-20 bílar setið fastir þegar ýtan lagði af stað, en svo spurst út að verið væri að opna leiðina og þá fleiri bílar lagt af stað í humátt á eftir hersingunni. Var það bíll sem sat fastur í snjónum sem náði sambandi við Guðmund Einarsson yfir talstöð og bað um aðstoð.

Þegar í bæinn var komið var verki Pálma ekki lokið, heldur sneri hann gröfunni við og hreinsaði veginn öðru sinni, í hina áttina, enda þurfti hann hvort eð er að sækja sinn eigin jeppa sem var lagt uppi á velli, aka svo aftur til Reykjavíkur og þá fyrst að hann gat lagst til hvílu. Pálmi man ekki hvort hann fékk greitt sérstaklega fyrir moksturinn en hann minnist þess að yfirmaður hans Guðmundur hafi verið afskaplega þakklátur og komið í heimsókn til hans á Sauðrárkróki árið eftir.

Saumnálar og hælboltar

Pálmi starfaði ekki lengi sem jarðýtustjóri. Hann segir hafa verið krefjandi starf að sækja möl í Stapafell og aðbúnaðurinn í stjórnklefanum verið allt annar en á vinnuvélum nú til dags. Í framhaldinu lærði hann bifvélavirkjun og rennismíði og fékk meistararéttindi í báðum iðngreinum. Minnist hann þess að hafa sem stálrennismiður smíðað allt frá agnarsmáum saumavélanálum fyrir síldarpokasaumavélar á Raufarhöfn upp í hælbolta fyrir Hallveigu Fróðadóttur, fyrsta dísiltogara Íslands.

Hann sagði þó ekki með öllu skilið við jarðýturnar og keypti sér sína eigin Caterpillar D6C með holræsaplóg og notaði til að hjálpa bændum um allt land að laga hjá sér mýrarnar. Páll kynntist konu sinni Eddu nokkru eftir snjómokstursævintýrið og hreiðruðu þau um sig á Sauðárkróki þar sem þau eignuðust fimm börn. „Hún hefur lagt það á sig að búa með mér allan þennan tíma og hugsar ósköp vel um mig,“ segir Pálmi, sem reiknast til að barnabörnin séu orðin um tuttugu talsins og búa afkomendurnir hér og þar á landinu.

Pálmi Jónsson fékk ekkert að hvíla sig á meðan á …
Pálmi Jónsson fékk ekkert að hvíla sig á meðan á mokstrinum stóð. Ljósmynd/Þórarinn Sverrisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: