Árleg jeppasýning Toyota á laugardag

Á sýningunni verður hægt að skoða margt áhugavert og sjá …
Á sýningunni verður hægt að skoða margt áhugavert og sjá það nýjasta í Toyota jeppum.

Mikið verður um dýrðir í Kauptúni á morgun, laugardag, en þá fer fram árleg jeppasýning Toyota og stendur yfir frá 12 til 16. Í tilkynningu segir að þessi árvissi atburður sé fyrir löngu orðinn fastur liður í tilveru jeppamanna og útivistarfólks og von á þúsundum gesta á Jeppasýninguna. Þar má sjá bæði nýja og gamla, breytta jafnt sem óbreytta jeppa og allt það sem hæst ber í jeppum hjá Toyota.

„Fjöldi samstarfsaðila tekur þátt í sýningunni og má nefna að Neyðarlínan 112 mætir með nokkra Hiluxa sem notaðir eru í starfseminni og kynnir einnig nýjan öryggisbúnað sem er í öllum nýjum kynslóðum bíla. Þessi búnaður heitir e-call og fer sjálfvirkt í gang ef bíllinn lendir í óhappi og sendir upplýsingar til Neyðarlínunnar um staðsetningu bílsins. Með þessum búnaði er einnig hægt að tala við Neyðarlínuna.“

Á sýningunni verður Bláa hernum líka afhentur nýr bíll til að nota við hreinsunarstarf félagsins en Blái herinn fagnar 25 ára afmæli á þessu ári. Ferðafélag Íslands kynnir ferðaleiðir á Fjallabaksleið og mun Tómas Guðbjartsson fararstjóri fræða gesti um ferðaáætlun þessa árs.

Ellingsen kynnir fjórhjól, sexhjól, Buggy-bíla o.fl., Arctic Trucks sýnir breytta jeppa, Hafsport sýnir búnað fyrir sjósportið og Klettur kynnir voldug jeppadekk. Brenderup kerrur fyrir græjurnar verða til sýnis og sölu.

mbl.is