Lexus skyggnist fram um áratug

Aldrei fyrr en nú hef ég upplifað að bíll sé …
Aldrei fyrr en nú hef ég upplifað að bíll sé með mitti, eða er það ekki örugglega? mbl.is/Stefán Einar Stefánsson

Hefði nokkurn grunað árið 2010 að innan áratugs yrðu tugir rafbílategunda á götunum og að margar þeirra væru búnar rafhlöðum sem tryggðu drægni upp á 400 kílómetra?

Einhverjir sjálfsagt, en fáir þó. Það er erfitt að skyggnast langt inn í framtíðina, ekki síst þegar þróunin á bílamarkaði er annars vegar. Sjaldan hefur þróunin verið jafn hröð á þessu sviði og þar ráða ekki aðeins stórstígar framfarir í tengslum við rafmótora og rafhlöður heldur einnig vetnisnotkun, sjálfstýringar og gervigreind.

En þótt það sé vandkvæðum bundið þurfa bílaframleiðendur að gera sitt til þess að spá fyrir um framtíðina og að einhverju leyti mega þeir vel við una, þeir hafa framtíðina að nokkru marki í hendi sér. Þeir koma að því að móta næstu skref.

Horfa fram um áratugi

Þetta veit Toyota/Lexus betur en flestir og á japanska vísu horfir fyrirtækið langt fram á veginn. Það kom berlega í ljós nýverið þegar fyrirtækið svipti hulunni af framtíðarbílnum LF-30 en honum er ætlað að gefa almenningi einhverja tilfinningu fyrir því hvernig bílar „framtíðarinnar“, þ.e. innan áratugs, munu líta út.

Það er ekki laust við að þeir sem berja LF-30 augum þurfi að staldra við og draga andann djúpt. Þar er margt að melta. Útlitið er sannarlega framúrstefnulegt og óhefðbundið. Það á jafnt við um fram- og afturenda bílsins en hliðarnar eru einnig ólíkar öllu því sem áður hefur verið kynnt á þessum markaði. Vængjahurðirnar eru reyndar ekki nýjar af nálinni en það er nýlunda að þær séu ætlaðar fram- og aftursætum og þær eru dregnar inn og upp með síðu bílsins sem gerir hann óvenju „mittismjóan“. Eru bílar annars ekki með mitti?

Eitt stykki og úr skónum

Frá því að bíllinn var fyrst kynntur á bílasýningunni í Tókíó undir lok síðasta árs hefur bíllinn farið á milli sýninga og það var í Amsterdam sem blaðamaður Morgunblaðsins fékk að líta gripinn í fyrsta sinn. Það sem m.a. kemur á óvart er hversu stór hann er eða ríflega 5 metrar á lengd og tæpir tveir metrar á breidd. Þá er hann 2.400 kg að þyngd. En þrátt fyrir hina miklu þyngd nær hann 100 km hraða á 3,8 sekúndum og rafhlaðan er 110 kW/h. Það gefur honum raundrægni upp á ríflega 400 km.

Það voru hikandi starfsmenn Lexus sem veittu blaðamanni heimild til þess að setjast um borð og það var gert með einu skilyrði. Það var ekki æskilegt að stíga skrefið til fulls með skóbúnaðinn reyrðan um fótinn. Því ræður ekki viðkvæmni bílsins enda er hann smíðaður úr sterkum efnum. Reynt er að draga sem mest úr nær viðstöðulausu álagi á bílnum sem vekur hvarvetna mikla eftirtekt. Og annað ræður einnig miklu um þessa sérmeðferð. Það er engu öðru eintaki til að dreifa. LF-30 er aðeins til í einu eintaki. Og verðmiðinn er af þeim sökum enginn afsláttarmiði. Yfir 2 milljónir dollara.

Hönnuður með blik í auga

Það var mikil upplifun að fá tækifæri til að ræða við Ian Cartabiano, yfirhönnuð Lexus í Evrópu, eftir að hafa farið höndum um stýri LF-30. Hann bendir á að bíllinn skyggnist ekki aðeins með ytra útliti sínu inn í framtíðina. Innanrýmið segi sína framtíðarsögu einnig og stjórnbúnaðurinn allur. Og þar komst hann réttilega að orði. Stýrishjólið er ekki hjól og á miklu meira skylt við stýrisbúnað Boeing-þotu en hefðbundins bíls. Og það má draga að sér eða leggja næst mælaborðinu. Bíllinn boðar sjálfakandi framtíð þar sem bílstjórinn getur kosið að taka meiri eða minni þátt í akstursferlinu.

Aftursætin boða einnig nýja nálgun á ferðlag um borð í bíl. Körfusæti sem steypt eru inn í innréttinguna, snúa skáhalt á móti hvort öðru og minna helst á fyrsta farrými um borð hjá Emirates eða Qatar Airways. Glerþakið sem nær aftur með bílnum og er hluti af framrúðunni er búið nýjustu tækni og getur varpað upp stjörnubjörtum himni eða öðrum upplýsingum sem farþegana getur vanhagað um.

Og að utan. Dekku og felgur eins og maður hefur aldrei séð þau áður. Fyrstu dekkin sem framleidd eru í heiminum þar sem felgan fellur inn í dekkið. Og þær eru enda engin smásmíði og plássið er nauðsynlegt. Bíllinn er knúinn áfram með fjórum mótorum sem staðsettir eru inni í dekkinu. Þarna er hugsað út fyrir rammann. Hönnuðir Lexus hafa tekið orð Ronalds Reagan bókstaflega þegar hann sagði: „Framtíðin heyrir ekki hinum hugdeigu til. Hún heyrir til hinum hugrökku.“

Ian Cartabiano, hönnuði hjá Lexus, þykir ekki leiðinlegt að tala …
Ian Cartabiano, hönnuði hjá Lexus, þykir ekki leiðinlegt að tala um LF-30. Stefán Einar Stefánsson
Þetta er ekki um borð í herþotu heldur LF-30. Svona …
Þetta er ekki um borð í herþotu heldur LF-30. Svona gæti framtíðin litið út. mbl.is/Stefán Einar Stefánsson
Ein og sama hurðinþjónar fram- og aftursætum. Hún er tilkomumikil.
Ein og sama hurðinþjónar fram- og aftursætum. Hún er tilkomumikil. mbl.is/Stefán Einar Stefánsson
Lexus LF-30
Lexus LF-30 mbl.is/Stefán Einar Stefánsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: