Frestað í New York

Frá bílasýningunni í New York í fyrra.
Frá bílasýningunni í New York í fyrra.

Í ljósi útbreiðslu kórónuveirunnar þarf það ekki að koma á óvart, en ákveðið hefur verið að fresta alþjóðlegu bílasýningunni í New York.

Sýningin átti samkvæmt venju að fara fram í apríl en hefur verið frestað til ágústloka, „til að vernda gesti, sýnendur og alla þátttakendur fyrir kórónuveirunni,“ eins og sagði í tilkynningu.

Þetta er þriðja stóra bílasýningin sem hætt er við eða slegið á frest. Áður hafði bílasýningunni árlegu í Genf verið slaufað og einnig árlegri sýningu í Peking. Þeirri fyrrnefndu var aflýst fyrir fullt og allt nokkrum dögum áður en hún skyldi hefjast í síðustu viku. Frestunin í Peking var aftur á móti sögð ótímabundin.
Aðstandendur sýningarinnar í New York segja framlag hennar til hagkerfis borgarsvæðisins svari 330 milljónum dollara á ári.
mbl.is