Þýskir fá það óþvegið

Mercedes-Benz Vision EQS var stillt upp á sviði ársfundar Daimler …
Mercedes-Benz Vision EQS var stillt upp á sviði ársfundar Daimler á dögunum. AFP

Þýskir bílsmiðir eiga ekki sjö dagana sæla nú um stundir og eru jafnvel úthrópaðir sem „kapítalísk svín“.

Ástæðan er sú að á nær sama tíma og VW, Daimler og BMW deila út 7,5 milljarða evru arði til hluthafa sinna fyrir nýliðið ár sækja bílsmiðirnir um opinberan fjárstuðning vegna launagreiðsla til rúmlega 200.000 starfsmanna. Fara þeir að auki fram á fjárstuðning við starfsemi fyrirtækjanna, sem varist hafa öllum spurningum fjölmiðla um þessi efni.

Þýskir neytendur gripu til harkalegra ráðstafana vegna kórónuveirunnar til að verja pyngju sína. Bílasala skrapp saman um hvorki meira né minna en 38% milli ára í marsmánuði. Námu kaupin 215.000 bílum.

mbl.is