Allt að 85% söluhrun

Bílsmiðir hafa dregið úr framleiðslu síðustu vikur. Myndin er tekin …
Bílsmiðir hafa dregið úr framleiðslu síðustu vikur. Myndin er tekin í bílsmiðju Volvo í Torslanda við Gautaborg í Svíþjóð sl. föstudag. AFP

Bílasala hefur hrunið í Evrópu það sem af er ári og er skuldinni skellt á kórónuveiruna sem valdið hefur m.a. lokun umboða og bílabúða. Í Frakklandi er samdrátturinn einna mestur, eða 72% í nýliðnum mars.

Þegar er áætlað að heildarsalan í Frakklandi á árinu geti numið um 20 prósentum.  Miklu muni ráða hvenær afar ströngum útgöngubannsreglum verður aflétt.  

Nýskráningar í mars drógust saman um 72,2%  - 62.668 eintök - í mars miðað við sama mánuð í fyrra. „Þetta er sögulegt. Við höfum aldrei upplifað annað eins hrun,“ segir Francois Roudier, talsmaður franska bílgreinasambandsins (CCFA).

Þvert á þetta hafa rafbílar sótt í sig veðrið í Frakklandi það sem af er ári. Nam t.d. skerfur þeirra í janúar 8,2% af markaðinum eða miklu meiri en nokkru sinni fyrr. Og frá áramótum er söluaukning rafbíla í Frakklandi heil 140%.

Að sögn greiningafyrirtækisins Autoways voru 5.226 nýir bílar afhentir kaupendum á dag fram í miðjan mars. Frá 18. mars, deginum sem útgöngubann var sett, er fjöldi þeirra aðeins 312 bílar á dag.

Söluhæsti fólksbíllinn í Frakklandi frá áramótum er Peugeot með 22.608 eintök, í öðru sæti er Renault Clio með 16.237 eintök, í þriðja Citroen C3 með  12.688 eintök, í fjórða Peugeot 3008, í fimmta Peugeot 2008 og  í sjötta sæti er rafbíllinn Renault Zoe í 10.151 entaki.

Í lok mars stórlækkaði matsfyrirtækið Moody's horfur sínar fyrir bílasölu árið úr 2,5% samdrætti í 14%. Spáir matsfyrirtækið 21% samdrætti í Vestur-Evrópu, í Bandaríkjunum 15%  lækkun, 10% í Kína og 8% í Japan.

Bílasala í Evrópu allri dróst saman um 55% í mars í 567.308 eintök. Í sama mánuði í fyrra  nam salan 1,2 milljónum bíla, að sögn Bílgreinasambands Evrópu (ACEA). Stærsta hrunið  var á Ítalíu eða 85,4% og nam salan þar aðeins 28.326 bílum í mars.

Bílar á kyrrstæðu færibandi samsetningarsmiðju PSA Peugeot Citroen í Trnava …
Bílar á kyrrstæðu færibandi samsetningarsmiðju PSA Peugeot Citroen í Trnava í Slóvakíu sl. föstudag. AFP
mbl.is