Sakaðir um smygl

Flótti Ghosn um síðustu áramót vakti mikla athygli. Honum er …
Flótti Ghosn um síðustu áramót vakti mikla athygli. Honum er gefin stórfelld sviksemi að sök. AFP

Tyrkneskir flugmenn þotunnar sem fyrrverandi Renaultstjórinn Carlos Ghosn leigði til flóttans frá Japan til Líbanons milli jóla og nýárs hafa verið ákærðir fyrir smygl.

Um er að ræða fjóra flugmenn sem skiptust á að fljúga þotunni frá Evrópu til Japans og til baka og tvo flugþjóna. Saksóknarar krefjast allt að átta ára fangelsisdóms yfir hverjum flugmannanna og starfsmanni MNG, félagsins sem átti einkaþotuna. Eru þeir ákærðir fyrir að hafa með ólögmætum hætti smyglað innflytjanda, eins og það er orðað, að sögn fréttastofunnar Anadolu Agency.

Flugþjónarnir eiga svo yfir höfði sér eins árs fangelsisdóm verði þeir fundnir sekir um yfirhylmingu með því að tilkynna ekki glæp. Bæði flugmennirnir og flugþjónarnir neita sök og sögðust aldrei hafa vitað hver farþegi þeirra væri.

Ghosn var tekinn fastur árið 2018 fyrir fjármálamisferli í tengslum við forstjórastarf sitt hjá japanska bílsmiðnum Nissan. Hann var látinn laus gegn tryggingu og notaði tímann til að undirbúa flóttann gaumgæfilega. Eftir flug frá Osaka í Japan til Istanbúl í Tyrklandi skipti Ghosn yfir í aðra þotu sem flutti hann til Beirút í Líbanon, en þar lenti flugvél hans 30. desember sl.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: