Byrji ekki á að gera bíl upp frá grunni

Fornbílar eru gleðigjafar sem þarf að geyma inni á veturna …
Fornbílar eru gleðigjafar sem þarf að geyma inni á veturna svo að salt á vegum skemmi þá ekki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á meðan aðgerðir vegna kórónuveirunnar stóðu hvað hæst voru margir í þeim sporum að hafa meira en nægan frítíma til að sinna hugðarefnum sínum heima fyrir. Er næsta víst að sumir hafa óskað sér, í miðju kófinu, að eiga eins og einn fornbíl inni í bílskúr til að dytta að eða geta nýtt tímann til að taka gamlan garm alveg í gegn.

En er það á allra færi að gera upp gamla bíla og stunda viðgerðir í bílskúrnum heima? Kallar þetta áhugamál nokkuð á sérstaka menntun eða sérstaka aðstöðu, og eru einhverjar gildrur sem þarf að varast?

Bjarni Þorgilsson er með svarið, en hann er formaður Fornbílaklúbbs Íslands. Hann segir að þökk sé netinu eigi fólk sem sé sæmilega handlagið að geta ráðið við einfaldar viðgerðir á eldri bílum. „Bílar sem eru framleiddir fyrir 1980 eru ekki svo tæknilega flóknir og þarf ekki stóran verkfærakassa til að geta bjargað sér sjálfur með nánast allar viðgerðir. Það er ekki fyrr en fullkomnar tölvur, bein innspýting, ABS og þess háttar tækni kemur til sögunnar að viðhald og viðgerðir verða flóknari og kalla á sérhæfð tæki og sérmenntun.“

Bjarni segir eldri bíla tiltölulega einfalda smíði og að á netinu megi finna fróðleik, handbækur og jafnvel kennslumyndbönd sem sýna hvernig sinna má viðgerðum og viðhaldi. Þá hafi aldrei verið auðveldra að panta varahluti frá erlendum seljendum auk þess sem þetta áhugamál veitir fólki aðgang að stóru og hjálpsömu samfélagi á samfélagsmiðlum, spjallsvæðum og í félögum eins og Fornbílaklúbbnum, þar sem leita má ráða.

Hæfilega stór biti

Bjarni varar þó við að sumum byrjendum hætti til að færast of mikið í fang og setja sér það markmið að gera gamlan bíl upp frá grunni. Slík verkefni gangi sjaldnast upp; margir gefist upp á miðri leið og hafi litla ánægju af. „Hyggilegra er að splæsa í heillegra eintak sem er ökufært og hægt að halda í góðu ástandi með minniháttar aðgerðum hér og þar. Getur eigandinn þá sett sér viðráðanleg markmið eins og að laga þéttikanta einn veturinn, eða olíuleka þann næsta, og hægt að hafa ánægju af bílnum allan tímann. Að gera upp fornbíl frá a til ö í heilu lagi er oftast meira en að segja það og kallar t.d. á meira pláss en er í boði í dæmigerðum bílskúr.“

Þá þarf að fara mjög varlega þegar fornbíll er keyptur frá erlendum seljanda og hefur Bjarni sjálfur lent í því að kaupa köttinn í sekknum. Hann segir auðvelt að falla fyrir kostaboði á erlendum uppboðsvefjum, en að í sumum tilvikum feli myndirnar það að ástand bílanna er slæmt. „Það gerist stundum þegar fornbíll er boðinn sölu hér á landi að heitar umræður spinnast um verðið, og einhver bendir á að sams konar bíll sé til sölu fyrir mun minna í öðru landi. Gleymist þá að taka með í reikninginn að flutningskostnaðurinn getur verið meiri en verðmismunurinn auk þess að íslenska bílinn má skoða með eigin augum og reynsluaka áður en verður af kaupunum.“

Verða að vera inni á veturna

Eitt er svo að halda fornbílnum við með reglulegum smáviðgerðum og annað að hugsa rétt um ökutækið. Bjarni segir aðstæður þannig á Íslandi að geyma þurfi fornbíla innandyra yfir vetrartímann og helst ekki taka þá úr geymslu fyrr en síðla vors þegar allt salt er farið af götum. Salt getur valdið því að ryð myndast á augabragði og skemmir bílana á örskotsstundu. „Saltausturinn í borginni er gegndarlaus og gamalt járn, salt, frost og vatn eru engir vinir. Má ekki einu sinni skjótast eitt skipti út í búð eftir mjólk, því þá er strax komið salt á bílinn og byrjað að skemma.“

Fyrir vikið er ekki skynsamlegt fyrir Íslending að ætla að aka um á fornbíl árið um kring, þó það geti við fyrstu sýn virst bæði ódýrara og skemmtilegra en að vera á jafndýrum nýjum bíl. „Þarf líka að muna að nýju bílarnir eru notendavænni á margan hátt og í stað innsogs og að trampa þrisvar á bensíngjöfina eru t.d. ótal skynjarar sem stýra því hvernig vélin bregst við þegar bíllinn er ræstur og taka tillit til hitastigs og jafnvel hæðar yfir sjávarmáli til að tryggja að ræsingin gangi snurðulaust fyrir sig, svo ekki sé minnst á allan þann vandaða öryggisbúnað sem er í nýrri bílum. Fornbílum fer mikið betur að aka á sumardögum við bestu aðstæður.“

Þó þeir henti ekki til hversdagsbrúks er samt mjög gefandi áhugamál að eiga fornbíl, að sögn Bjarna, og líkir hann fornbílum við minninga- og tímavélar. Finnst honum alltaf upplifun að setjast upp í einhvern af þeim þremur fornbílum sem hann á og t.d. skjótast í ísbíltúr. „Það er gaman að sjá að bíllinn vekur athygli, skemmtileg lykt er af gömlu leðri eða vindlinum hans afa, ýmsar minningar sem rifjast upp og kunnuglegir staðir sem bregður fyrir á leiðinni öðlast nýtt samhengi,“ segir hann. „Svo er mikið líf í samfélagi fornbílaeigenda og fátt skemmtilegra en að fara með stórum hópi fornbíla í langan bíltúr eða ferðalag, kynnast góðu fólki og eignast góða vini – ég fann meira að segja eiginkonuna mína í Fornbílaklúbbnum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: