Ég átti pleisið

Ferðalag í húsbíl er einstakur munaður. Hægt er að taka …
Ferðalag í húsbíl er einstakur munaður. Hægt er að taka ákvörðun um útilegu með engum fyrirvara, enda er allt sem þarf til staðar í bílnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar ég hef í gegnum tíðina leitt hugann að ferðalögum innanlands, og til þess hver væri draumaferðamátinn, þá hefur mér alltaf þótt það aðlaðandi kostur að ferðast um á húsbíl. Ég hef ímyndað mér að það sé fyrirhafnarminni og vandræðalausari ferðamáti en að ferðast um með hjólhýsi eða fellihýsi í eftirdragi, nú eða með gamla góða tjaldið í skottinu.

Húsbíllinn væri einfaldari kostur að því leyti að hægt væri að koma heim eftir vinnu á föstudegi, fara beint út í bíl og keyra af stað. Í bílnum væri allt til alls og engin þörf væri á að pakka einu né neinu. Þannig sparaðist tími og fyrirhöfn, og útilegan væri auðveldari ákvörðun í hvert sinn.

Eini augljósi ókosturinn væri í raun sá að bíllinn yrði kannski ekki sá liprasti í skottúra út frá tjaldstæðinu á hverjum stað. Auk þess þyrfti að tryggja að enginn tæki stæðið manns, ef maður brygði sér af bæ í stutta stund á bílnum til að kaupa í matinn eða fara í sund.

Á dögunum fékk ég loksins tækifæri til að prófa að ferðast um í húsbíl þegar ég fékk lánaðan hjá Víkurverki fjögurra manna húsbílinn Hobby Optima De Luxe T65 HFL, og tekin var stefnan á tjaldstæðið á Flúðum. Daginn eftir yrði ekið að Gullfossi og Geysi með viðkomu í Úthlíð og Hveragerði.

We‘re The Millers

Þegar fjölskyldan var búin að koma sér vel fyrir úti í bíl, leið ekki á löngu þar til einhver var byrjaður að humma lagið „Don't Go Chasing Waterfalls“ með bandarísku stúlknasveitinni TLC. Af hverju var það, gætu einhverjir spurt. Jú, hugrenningatengslin komu beint úr bandarísku gamanmyndinni We're the Millers, með þeim Jennifer Aniston og Jason Sudeikis í aðalhlutverkum. Þar flutti Millers-„fjölskyldan“ lagið með eftirminnilegum hætti inni í glæsilegum húsbíl.

En nóg um það. Hobby Optima-bíllinn er glæsilegur útlits, og engin skömm að því að svífa á honum inn á vel skipuð tjaldstæði landsins, nema síður sé. Í raun leið mér eins og ég ætti pleisið. Ég hafði passað mig á því að stinga bílnum í samband yfir nótt áður en lagt var í hann, og því var nóg rafmagn á batteríinu þegar komið var á tjaldstæðið. Engin þörf var á að stinga honum í samband til að njóta þess helsta sem er rafdrifið. Auk þess sem hægt er að hlaða bílinn með snúru bætir hann einnig orku inn á rafhlöðuna á ferð.

Ef við ræðum stuttlega ytra byrði húsbílsins þá skartar hann stórum speglum sínum hvorum megin við bílstjórann, sem auðvelda alla stjórnun í akstri. Hobby Optima er með stóran og rúmgóðan „bílskúr“ eða skott, þar sem jafnvel væri hægt að henda inn hjóli. Hjól er einnig hægt að festa aftan á bílinn. Kjörið er að taka reiðhjól með í útileguna þegar ferðast er um á húsbíl. Þá var þessi útgáfa af bílnum með myndarlega markísu, sem auðvelt er að draga út. Niður úr henni falla útdraganlegir fætur, sem gera þetta allt mjög einfalt. Líklega væri enn betra ef hægt væri að hafa heilt tjald úti fyrir bílnum, og auka þannig athafnarýmið enn frekar á tjaldstæðinu.

Útdraganleg hilla fyrir gaskútana

Eins og á öðrum húsbílum er bíllinn með stóran áfyllanlegan vatnstank, og hægt er að setja tvo stóra gaskúta inn í bílinn með nokkuð auðveldum hætti. Kútarnir liggja á hillu sem dregin er út úr hólfi á hlið bílsins og góðar festingar halda kútunum tryggilega á sínum stað. Gasið er mjög mikilvægt í húsbílnum, þar sem það knýr ísskápinn og frystinn, þriggja brennara eldavélina og miðstöðina.

Hægt er að ganga inn í húsbílinn á hliðinni, sem og að framan að sjálfsögðu. Hurðin á hliðinni er með ágætri ruslatunnu, og við innganginn er takki sem skýtur út rafdrifnu þrepi, til að auðvelda inngöngu. Að mörgu leyti er húsbíllinn svo eins og lítið hótelherbergi. Rúmin, bæði hjónarúmið og rúmið sem er geymt fyrir ofan borðkrókinn/stofuna og dregið niður að kveldi, eru þægileg og dýnan mátulega stíf. Baðherbegið snyrtilegt með fallegri rennihurð, heitri sturtu, vaski og klósetti, snúru til að hengja á blaut föt, reglulega smekklegri lýsingu og nóg af hirslum. Hobby Optima er reyndar með töluvert af hirslum og snögum hér og hvar, enda nauðsynlegt svo vel fari um alla í ferðalaginu. Meira að segja er sérstakur skóskápur við innganginn.

Næturopnun er á gluggum, og þrjár topplúgur gera mönnum auðvelt fyrir að fá ferskt loft til að leika um mannskapinn, hvort sem er á ferð eða þegar slakað er á á tjaldstæðinu.

Ágætis bakkmyndavél

Gert er ráð fyrir króki á bílnum, og er hann búinn ágætis bakkmyndavél sem myndar hluta af Blaupunkt-upplýsingakerfi hjá bílstjóra. Þetta upplýsingakerfi er ekki það nýtískulegasta, en gerir sitt gagn og auðvelt var að tengja alla síma við blátannarkerfið, og kveikja á leiðsögukerfinu. Frammi í er einnig pláss fyrir þrjú drykkjarmál, og gúmmífóðring í hólfunum er einkar góð til að passa að drykkirnir fari ekki á ferð. Þá er hægt að hlaða síma í USB-tengi, en ekki tókst mér að hlaða símann í rafmagnsinnstungum aftur í.

Bíllinn sjálfur er díseldrifinn af Fiat-gerð, og merkilega lipur í innanbæjarakstri miðað við stærðina. Eldsneytiseyðslan fannst mér ekki mikil. Gírkassinn er sex gíra og er bíllinn búinn skrunstillingu. Bílstjórasætið og farþegasætið við hliðina eru stillanleg, en það mætti vera hægt að lækka sætin meira fyrir lágvaxnari aðila. Báðum sætum er hægt að snúa auðveldlega, þannig að þau vísi að borðstofuborðinu á bak við.

Léttar viðarinnréttingar eru í bílnum, en skápar eru hvítir með krómhöldum.

Við hjónarúmið er mjög gott lesljós, og fyrir ofan höfðalagið er snotur hilla sem einfalt er að nota fyrir síma, bækur og lesgleraugu. Þá er húsbíllinn búinn fyrirtaks myrkvunargardínum allan hringinn, sem gerir svefnupplifunina enn dýpri og ánægjulegri.

Rúmgott eldhús

Gott og aðgengilegt stýrikerfi er fyrir ofan útidyrahurðina þar sem sjá má stöðuna á vatns-, gas- og rafmagnsbirgðum ásamt því sem þar er hægt að stýra útvarpi og fjölbreyttri LED-lýsingu. Þá er þarna stýrikerfi fyrir miðstöðina, sem sveik ekki þegar kólna fór um kvöldið. Annað slíkt stýribox fyrir miðstöðina er einnig við hjónarúmið. Því þarf enginn að skondrast fram úr til að stilla hitann seint að kvöldi eða um nótt.

Bíllinn er að auki búinn sjónvarpi og DVD-tæki, stóru matarborði og þægilegum sætum allt í kring. Eldhúsið er nokkuð rúmgott og býður upp á sæmilegt pláss til matargerðar. Eins og þú, lesandi góður, ættir að vera búinn að átta þig á eftir þennan lestur, er ferðalag í þessum húsbíl þónokkur lúxus, og hentar sérstaklega vel þeim sem kjósa að ferðast með stæl.

Aðalsvefnplássið er bæði þægilegt og notalegt og dýnan hæfilega mjúk.
Aðalsvefnplássið er bæði þægilegt og notalegt og dýnan hæfilega mjúk. mbl.is/Kristinn Magnússon
Á kvöldin má fella niður rúm sem er fyrir ofan …
Á kvöldin má fella niður rúm sem er fyrir ofan eldhúsborðið. Þar er pláss fyrir tvo fullorðna.
Í eldhús húsbílsins vantar í sjálfu sér ekki neitt þótt …
Í eldhús húsbílsins vantar í sjálfu sér ekki neitt þótt smátt sé.
Lúxusinn skortir ekki þegar ferðast er á húsbíl. Nóg er …
Lúxusinn skortir ekki þegar ferðast er á húsbíl. Nóg er af hillum og hólfum og alls kyns sniðugum lausnum sem auka notagildið. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: