Þrívíddarprentið jók aflið um 30%

Þrívíddarprentaðir stimplar auka vélarafl Porsche GT2 RS um 30%.
Þrívíddarprentaðir stimplar auka vélarafl Porsche GT2 RS um 30%.

Porsche hefur náð fram 30% aflsaukningu úr bílvél með því að brúka þrívíddarprentaða stimpla. Voru þeir þróaðir í samstarfi  við verkfræðifyrirtækin Mahle og Trumpf.

Prófanir í akstri hafa farið fram á Porsche GT2 RS. Að sögn eins af yfirmönnum þróunardeildar Porsche, Franck Ickinger, eru nýju stimplarnir léttari en þeir sem fyrir voru og skila 30%  meira afli.

Ickinger segir að nú geti vélaverkfræðingar Porsche aukið vélarsnúninginn, lækkað hitaálag á stimplunum og náð fram ákjósanlegasta eldsneytisbruna.  

Þetta er ekki fyrsta notkun Porsche á þrívíddarprentuninni því bílsmiðurinn hefur brúkað hana til að framleiða meðal annars sæti fyrir 911- og 718-módelin. Þá eru á þriðja tug íhluta að finna í Porsche Classic’s vörulistanum.

mbl.is