Á íslenska ævintýravegi

Sýn sem blasir við ferðalöngum, segir í texta með þessari …
Sýn sem blasir við ferðalöngum, segir í texta með þessari mynd í kynningu á Íslandsleiðangrinum. Ljósmynd/Honda

„Um eldfjöll og jökla á Honda AfricaTwin mótorhjólum“ er yfirskrift kynningar á skipulögðum mótorhjólaferða til Íslands sem auglýstar eru í nafni Honda.  

Á vefsetrinu Rideapart segir að þriðja útgáfa af svonefndum  „ævintýravegum“ verði farin á næsta ári. Í þeim tveimur fyrri hafi leiðin legið til Noregs 2017 og Suður-Afríku 2019.

Nú sé stefnt til „lands elda og ísa“ á næsta ári, 2021, þar sem „hópur ævintýrafólks mun rannsaka suðurhluta landsins og miðhálendi í ellefu daga. Þátttaka í ferðalaginu verður ekki fyrir byrjendur, heldur fyrir knapa með minnst fimm ára reynslu af akstri mótorhjóla.

„Þeir verða vera færir ökumenn því íslenskar auðnir eru enginn brandari við að eiga,“ segir í kynningunni.  Þar kemur fram að þátttaka kosti 5.000 dollara á mann. Þátttaka standi aðeins eigendum Honda Africa Twin í Evrópu til boða. Þeir þurfa þó ekki að hjóla á sínum hjólum til Íslands, heldur verði þeim lögð til „splunkuný og glansandi“ CRF1100L hjól hér á landi.  

Loks segir, að til viðbótar akstri um Ísland fái þátttakendur að spreyta sig í og tilsögn í utanvegarakstri. Verði sú þjálfun í höndum ökumanna verksmiðjuliða Honda. agas@mbl.is

mbl.is