Enginn vandi að búa með rafbíl

Tómas Kristjánsson við Nissan Leaf rafbíl sinn.
Tómas Kristjánsson við Nissan Leaf rafbíl sinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tómas Kristjánsson segir sögur um biðraðir við hleðslustöðvar og hálfslappar rafhlöður á köldum dögum ekki eiga við nýjustu rafbíla.

Fyrstu rafbílarnir voru ekki jafn fullkomnir og ekki með jafn öflugar rafhlöður og þeir bílar sem eru á markaðinum í dag, og enginn vandi að t.d. ferðast hringinn um landið á rafmagninu einu saman.

„Það á t.d. við um bíla með 75-100 kWst rafhlöðu að það eru bílar sem ætti að vera nóg að hlaða einu sinni í viku miðað við venjulegan innanbæjarakstur,“ segir Tómas en hann er formaður Rafbílasambands Íslands og stoltur eigandi 9 ára gamals Nissan Leaf sem hann flutti inn til landsins árið 2012. Rafbílasambandið er hagsmunasamtök rafbílaeigenda og hefur allt frá stofnun leitast við að greiða leið rafbíla, fræða og hjálpa eigendum þeirra með ýmsum hætti.

Miklu ódýrari í rekstri

Það sem kveikti áhuga Tómasar á rafbílum var lítill rekstrar- og viðhaldskostnaður. „Miðað við verðið á rafmagni á Íslandi er hver ekinn kílómetri á að giska 5-10 sinnum ódýrari á rafmagnsbíl en á bensínbíl og viðhaldið er nánast ekkert. Það eina sem kemur fram í þjónustubók bílsins míns eftir margra ára notkun eru dekkja- og bremsuskipti. Þá er svo þægilegt að þurfa aldrei að koma við á bensínstöð heldur einfaldlega stinga bílnum í samband þegar heim er komið, og halda svo af stað næsta morgun með fulla rafhlöðu. Gíralaus rafmótor býður líka upp á einstaklega þægilega akstursupplifun í borgarumferð.“

Tómas hefur haldið nákvæmt bókhald um allan kostnað tengdan rafmagnsbílnum sínum og setti m.a. upp sérstakan rafmagnsmæli við hleðslustöðina á heimilinu til að sjá betur hve mikla orku bíllinn notaði. „Samkvæmt nýjustu mælingu þá hefur það kostað mig um 50.000 kr. á ári að hlaða bílinn eða um 400.000 kr. þau átta ár sem ég hef notað hann. Heildarútgjöld vegna varahluta og viðgerða eru 38.000 kr., en 38.240 ef við teljum með að skipta þurfti um rafhlöðu í lyklinum,“ segir hann en að jafnaði hefur bílnum verið ekið u.þ.b. 15.000 km á ári. „Þetta er álíka rekstrarkostnaður á átta árum og ég gæti vænst á einu ári ef ég ætti sambærilegan bensínbíl. Er þá eftir að taka með í dæmið að frítt er í stæði í miðborginni og bifreiðagjöldin eins lág og hægt er. Það eina sem vantar er að tryggingafélögin gefi afslátt af iðgjöldum rafbíla.“

Tvö ár að borga sig

Kaupverðið á rafmagnsbíl Tómasar á sínum tíma var hærra en kaupverð sambærilegs bensínbíls og áætlar hann að það hafi tekið um 1-2 ár þar til lágur rekstrarkostnaður var búinn að bæta upp verðmuninn. Þá voru aðstæður á markaði lengi þannig að Tómas hefði getað selt bílinn sinn með mjög litlum afföllum. „Verðið á notuðum rafmagnsbílum hefur sveiflast upp og niður í takt við framboð og eftirspurn. Það kom tímabil þar sem framboðið var mjög takmarkað og víða mátti sjá notaða rafmagnsbíla auglýsta til sölu á verði sem var litlu lægra en verðið á nýjum bíl. Í seinni tíð hefur framboðið á rafmagnsbílum batnað mjög og líka orðið framfarir í búnaði bílanna svo að munurinn á nýjustu bílunum og þeim eldri er meiri. Núna virðist mér að eldri rafbílar rýrni í verði með svipuðum hætti og bensín- og díselbílar. Aftur á móti halda nýjustu rafbílarnir verði sínu nokkuð vel og rakst ég t.d. nýverið á auglýsingu þar sem ársgamall rafmagnsbíll var boðinn til sölu nánast á sama verði og hann var keyptur á.“

Spurður hvort það feli í sér mikla lífsstílsbreytingu að eiga rafmagnsbíl – þurfa kannski að hugsa sig tvisvar um áður en kveikt er á miðstöðinni á köldum dögum eða hugsa allar ferðir út frá því hvar komast á í hleðslustöð – segir Tómas að það sé ósköp einfalt að lifa með nýrri gerðum rafbíla. „Á mínum átta ára gamla bíl minnir miðstöðin helst á hraðsuðuketil, sem svo sannarlega dregur til sín mikið rafmagn, en nýrri bílar eru með aðrar og betri lausnir, og mun stærri rafhlöður,“ segir hann. „Þá voru landsmenn duglegir að ferðast innanlands í sumar og mátti víða heyra sögur af fólki sem fór vandræðalaust í hringferð um landið á rafmagnsbíl, með fellihýsið og allt tilheyrandi í eftirdragi. Nú er verið að stækka og þétta hleðslustöðvanetið og auðvelt að komast í hraðhleðslu víðast hvar á landinu.“

Hleðslustöðvar á hverju strái

Tómas segir það ekki einu sinni fyrirstöðu að geta ekki stungið bílnum í samband við hleðslustöð heima fyrir: „Innanbæjar má komast í hraðhleðslustöðvar víða og hægt að hlaða rafhlöðuna á bílnum t.d. í vinnunni eða á meðan verslað er í matinn, og fólk getur farið allra sinna ferða án þess að eiga sína eigin hleðslustöð,“ útskýrir Tómas. „Þá er það mikill misskilningur að fólk verði að eiga bílskúr eða stæði í bílskýli til að geta komið fyrir hleðslustöð. Allar CE-merktar hleðslustöðvar eru þannig hannaðar að þær má hafa bæði innan- og utandyra og geta þolað öll veður. Ekki þarf að hafa áhyggjur af að bleyta komist í skautin, því engum straum er hleypt á klóna fyrr en hleðslustöðin er búin að „tala við“ rafbílinn og hleypa rafmagninu á.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: