Leður hverfur smám saman úr innréttingu bíla

Gerviefni hefur leyst leður af hólmi í innréttingum þessa Renault …
Gerviefni hefur leyst leður af hólmi í innréttingum þessa Renault Espace.

Virðing fyrir umhverfinu virðist vaxandi í heimi bílaframleiðenda. Svo mikið að nú blasir við að dýraleður hverfi úr innréttingum bíla og víki fyrir gerviefnum.

Engin lög eru til sem banna notkun leðurs í iðnaði en bílaframleiðendur eru engu að síður sagðir búa sig undir það. Og nokkrir þeirra hafa í einhverju mæli brúkað gervileður í stað ekta leðurs.

Til að mynda hætti bandaríski rafbílasmiðurinn Tesla notkun dýraleðurs í bílum sínum fyrir þremur árum. Leysti gerviefni úr eplahýði það af hólmi en áklæðið heitir Apple Peel Skin og vísar beint í upprunann.

Ekki þykir viðeigandi að tala um leðurlíki, en aðrir bílsmiðir hafa háð nokkurs konar hugvitskeppni í leit að fallegum nöfnum. Artico heitir gerviefnið í bílum Mercedes og Opel hefur kosið að nota orðið Morrocana. Mikil þróunarvinna er að baki þessum áklæðum og hafa framleiðendur lagt allt í sölurnar til að líkja sem mest og best eftir húðum dýra að mýkt og ná fram áferð sem hefur á sér yfirbragð mikilla gæða.

Meira að segja hefur verið prófað að þróa bílaáklæði úr blöndu af plast- og grænmetisþráðum. Það gerði Toyota þegar árið 2003 og vann klæði úr blöndumassa af plasti og maíssterkju.

Í áratug hefur Honda brúkað afskurð sykurreyrs sem hefur verið breytt í efni sem notað hefur verið á mælaborð, sæti og víða í farþegarýminu. Frá og með 2011 hefur Lexus notað gerviefni úr sætum kartöflum. Volvo lýsti fyrir hálfu öðru ári vilja til að snúa sér að leðurlíki úr jurtum og plöntum og hætta notkun dýraleðurs.

Ofursportbíllinn Audi E-Tron GT var lengi á þróunarstigi en athyglisvert er að innanrýmið eins og það leggur sig – frá gólfi upp í þak – er klætt úr endurunnum fiskinetum. Nýi A3-bíllinn frá Audi býðst svo með sætum og mottum úr klæði sem styðst við endurunnar plastflöskur.

agas@mbl.is

Gerviefni hefur leyst leður af hólmi í innréttingum þessa Renault Espace.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: