Jepparnir þurfa á megrun að halda

Stolt Peugeot er 5008 jeppinn sem jaðrar við að vera …
Stolt Peugeot er 5008 jeppinn sem jaðrar við að vera lúxusbíll. Hann er undir þyngdarmörkum sem nýi skatturinn miðast við.

Frakkar ætla að beita nýjum þyngdarskatti á þunga bíla og jeppa. Er það liður í herferð franskra stjórnvalda til að fá bílsmiði til að draga úr losun gróðurhúsalofts í framtíðinni, að sögn umhverfisráðherrans Barböru Pompili.

„Þyngdarskatturinn sem við erum að móta sendir kraftmikil og nauðsynleg skilaboð um að taka verði tillit til umhverfisáhrifa þyngstu bílanna,“ sagði Pompili á Twitter-síðu sinni.

„Því þyngri sem bílarnir verða því meira efni fer í smíðina og því orkufrekari sem þeir verða stafar frá þeim meiri mengun,“ bætti Pompili við. Og klykkti út með því að segja að stórir bílar tækju upp stærri skerf af almannasvæðum en minni bílar.

Samkvæmt upplýsingum umhverfisráðuneytisins verður nýi þyngdarskatturinn í fjárlögum næsta árs, 2021. Hann nær til farartækja sem eru 1.800 kíló eða þyngri. Eigandi verður að borga 10 evrur fyrir hvert kíló sem bíllinn er þar fram yfir. Rafbílar verða undanþegnir skattinum.

Stórir jeppar og bílar með drif á öllum fjórum hjólum eru agnarlítill skerfur bílanna á frönskum vegum. Meðaltalsþungi skráðra bíla í Frakklandi er um 1.200 kíló. Mest seldu bílarnir í þessum flokki frá t.d. Peugeot eða Renault eru allir vel undir 1,8 tonnum.

Aðeins þýsk bílamódel, frá t.d. BMW eðar Audi, sem selst hafa aðeins í nokkrum þúsundum eintaka í ár í Frakklandi, yrðu fyrir barðinu á skattinum nýja, ásamt nokkrum lúxusstallbökum.

Háir skattar á bensínháka

Stolt Peugeot er 5008 jeppinn sem jaðrar við að vera …
Stolt Peugeot er 5008 jeppinn sem jaðrar við að vera lúxusbíll. Hann er undir þyngdarmörkum sem nýi skatturinn miðast við.


Frakkar hafa á síðustu misserum gripið til hárra gjalda á bensínháka sem pumpað hafa út kolefnum. Hæsti flokkur þessara gjalda er 20.000 evrur.

Vinsældir jeppa hafa rokið upp úr öllu valdi undanfarin misseri en þeir sæta vaxandi andróðri frá umhverfissinnum sem láta sig breytingar í lofthjúpi jarðar varða. Samtökin WWF skýrðu frá því í byrjun október, að jeppar og fjórhjóladrifsbílar standi aðeins að baki flugsamgöngum hvað varðar ábyrgð á aukningu gróðurhúsalofts í Frakklandi á árabilinu 2008 til 2018. Þær 4,3 milljónir bíla í þessum stærðarflokki sem seldar voru á tímabilinu í Frakklandi voru með jafn stórt kolefnaspor og 25 rafbílar af smærri gerðinni, að sögn WWF.

Franskir embættismenn eru ósáttir við að hægt hefur á aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofts frá 2016. Skella þeir skuldinni á þyngri bíla.

Meðalþungi díselbíla hefur aukist um 7% frá 2010 og bensínbíla um 14%, eða um 100 kíló, að sögn franskra yfirvalda. Ætlunin er að nýi þungaskatturinn snúi þessari þróun við. Að hann letji neytendur til kaupa á stærri bílum. Og knýi bílsmiði til að hafa kolefnaspor bílanna í heild í huga, ekki bara útblástur þeirra. Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: