Fengu 26 rafdrifna bílaleigubíla afhenta

Bílaleiga Akureyrar/Höldur fékk á dögunum 26 rafdrifna bílaleigubíla afhenta, en með því tekur fyrirtæki vistvæn skref í átt að nýrri og umhverfisvænni framtíð í samstarfi við Heklu.

Um er að ræða tuttugu Volkswagen e-Golf bíla og sex rafdrifna Volkswagen ID.3 sem draga vel yfir 400 kílómetra, að því er fram kemur í tilkynningu.

ID.3 hentar einkar vel í borgarsnattið sem og lengri ferðir nú þegar hleðslustöðvum á landsbyggðinni fjölgar. ID.3 er fyrsta kynslóð bíla frá Volkswagen sem byggðir eru á nýjum MEB grunni sem er framtíðar undirvagn rafbíla VW.

„Bílaleiga Akureyrar/Höldur er ein af elstu og stærstu bílaleigum landsins. Við höfum þjónustað Íslendinga í áraraðir og leggur metnað sinn í að vera í forystu hvað varðar umhverfissjónarmið og samfélagslega ábyrgð og kaup á þessum glæsilegu rafbílum er liður í því,“ segir Bergþór Karlsson hjá Bílaleigu Akureyrar/Höldi í tilkynningunni.

„Mikla aukningu er að merkja í áhuga landsmanna á rafbílum og það er gaman að sjá bílaleigurnar taka þátt í orkuskiptunum. Framtíðin er rafmögnuð og við hjá Volkswagen stefnum að því að vera alrafmagnað bílaumboð innan nokkurra ára,“ segir Jóhann Ingi Magnússon hjá Volkswagen.

mbl.is