Sala á nýjum fólksbifreiðum jókst

Bílalager í Sundahöfn.
Bílalager í Sundahöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Sala á nýjum fólksbílum jókst um 12% í október sé miðað við sama mánuð í fyrra. Október er þannig þriðji mánuðurinn af síðustu fjórum þar sem söluaukning mælist milli ára. Þetta kemur fram í tölum Bílgreinasambandsins.

Þó er samdráttur í sölu ef horft er til fyrstu tíu mánaða ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Í heildina hefur salan því dregist saman um 23,7%. 8.008 fólksbifreiðar hafa selst í ár en í fyrra voru þær 10.449 talsins.

Til einstaklinga hafa selst 4.396 nýir fólksbílar það sem af er ári og er það aukning upp á 1,9% miðað við sama tíma í fyrra þegar selst höfðu 4.314 bílar til sama hóps. Umræddur hluti markaðarins er því nokkurn veginn á pari miðað við fyrra ár.

Almenn fyrirtæki, að bílaleigum undanskildum, hafa keypt 1.656 bifreiðar í ár miðað við 1.690 bifreiðar í fyrra, eða einungis 2,0% færri en í fyrra. Samdrátt í heildsölu það sem af er ári má því nær einvörðungu rekja til færri seldra bíla til ferðaþjónustunnar.

aronthordur@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: