Kaupa nýlega og dýra bíla

Jeppafloti fyrir utan Toyota í Garðabæ.
Jeppafloti fyrir utan Toyota í Garðabæ. mbl.is/Árni Sæberg

Viðskipti með notaða bíla hafa verið lífleg á árinu, þvert á það sem fólk í greininni taldi verða vegna áhrifa kórónuveirunnar. Samkvæmt tölum Samgöngustofu eru eigendaskipti á ökutækjum í ár orðin 107.185, borið saman við 97.970 á sama tíma í fyrra.

Aukningin er 8,6% en þá ber að hafa í huga að oft eru tvær til þrjár skráningar á bak við ein eigendaskipti, svo sem í uppítökuviðskiptum þegar fjármögnunarfyrirtæki er skráður eigandi bíls í skamman tíma.

Sé litið á einstaka tegundir þá eru skráð skipti eigenda á Ford Focus 1.027, 1.529 á Kia Sportage, Honda CRV hefur skipt 1.581 sinni um eigendur og Toyota RAV4 í 3.352 skipti, Volkswagen Golf 2.920 sinnum og Toyota Yaris 3.919 sinnum.

Söluaukningin er 34%

Meginlínuna í viðskiptum að undanförnu segir Sigurður Ragnar Guðlaugsson, sölustjóri notaðra bíla hjá Toyota í Garðabæ, þá að flestir leiti að bílum árgerð 2016 og þaðan af nýlegri. „Fólk vill nýjustu árgerðirnar og hækkar sig í verði, því reglur banka um lán til slíkra viðskipta eru rúmar. Bílar sem eru eldri en fimm ára eða svo seljast hægar. Markaðurinn er líflegur og lagerinn hjá okkur er ekki jafn stór nú og stundum áður,“ segir Sigurður.

Í október síðastliðnum var sala notaðra bíla hjá Toyota 10% meiri en í sama mánuði í fyrra. Salan fyrstu 10 mánuðina í ár er 34% meiri en í fyrra. „Þegar kórónuveiran skall á snemma árs taldi ég að markaðurinn yrði dauður í ár, en annað kom á daginn,“ segir Sigurður Ragnar. „Íslendingar ferðuðust innanlands og fóru í maí að huga að bílaviðskiptum. Sú velta hélst allt sumarið. Þegar komið hafa vondar fréttir af veirunni hafa viðskipti stundum dottið niður í vikutíma eða svo, en farið svo aftur í gang. Við kvörtum því alls ekki yfir stöðu mála.“

Tekið undan koddanum

Rögnvaldur Jóhannesson hjá Bílasölu Selfoss selur notaða bíla og er með umboð nýrra bíla fyrir Heklu og Öskju. „Í vor þegar tók fyrir utanlandsferðir notuðu margir sparifé ætlað í ferðalög undan koddanum til að kaupa nýjan bíl. Í því efni var ríkjandi hjá fólki að kaupa rafmagns- eða hybrid-bíla; um helmingur nýrra bíla sem seldir eru í dag í dag er knúinn öðru en jarðefnaeldsneyti,“ segir Rögnvaldur.

„Í viðskiptum með nýja bíla eru eldri ökutæki gjarnan tekin upp í og eru gjarnan keypt af ungu fólki sem hefur ekki endilega mikið á milli handa,“ segir Rögnvaldur sem telur framangreint með öðru ráða því að jafnvægi og hringrás í bílaviðskiptum á árinu hafi haldist. „Bílaleigurnar hafa haldið að sér höndum við endurnýjun. Stundum hafa komið þau ár að þær demba þúsundum eins og hálfs til tveggja ára gamalla bíla í endursölu, en bíða með allt slíkt núna. Fyrir vikið er framboð notaðra bíla hóflegt og jafnvægi á markaði.“

Vaxalækkanir haft mikil áhrif

Björn Hansson hjá Bílasölu Reykjavíkur segir viðskiptin í ár standa nánast á pari við fyrra ár. Veirufréttir hafi stundum valdið hökti á markaði, sem gangi þó jafnan fljótt til baka. Í sumar hafi salan verið mjög góð.

„Vaxtalækkanir hafa mikil áhrif. Stundum hefur fólk endurfjármagnað íbúðalán og jafnhliða losað um peninga sem fara í bílakaup. Vextir af bílalánum í dag eru 5,5% og hafa sjaldan verið jafn lágir. Slíkt hvetur fólk til viðskipta og þegar upp verður staðið er 2020 gott ár í bílaviðskiptum,“ segir Björn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: