Rafmagnið lækkar rekstrarkostnað og bætir ímynd

Tryggvi Benediktsson segir kaupendur þurfa að greina eigin þarfir. Þeirsem …
Tryggvi Benediktsson segir kaupendur þurfa að greina eigin þarfir. Þeirsem aka t.d. langar vegalengdir út á land eru líklega betur settir með díselvél en rafmagnssendibílar henta vel til notkunar innanbæjar. mbl.is/Árni Sæberg

Rafbílavæðingin nær ekki aðeins til fólksbílaflotans og eru æ fleiri framleiðendur sendibíla farnir að bjóða upp á rafmagnaða valkosti.

Tryggvi Benediktsson er framkvæmdastjóri bifreiðasviðs Bílabúðar Benna og segir að rafdrifnir sendibílar geti verið mjög heppilegur og hagkvæmur kostur en hver og einn kaupandi þurfi að greina eigin þarfir þegar hann ákveður hvers konar aflrás henti besti.

„Með rafmagninu má t.d. lækka allan rekstrarkostnað til muna enda rafmagnið ódýrara en bensín og díselolía og viðhaldskostnaður rafmagnsbíla minni,“ segir Tryggvi og minnir á að atvinnubílar séu alla jafna notaðir í mun meiri akstur en dæmigerðir heimilisbílar og því komi sparnaður vegna eldsneytiskaupa fyrr fram. „Nýlega fengum við til okkar viðskiptavin sem var ekki viss um hvort hann ætti að velja sendibíl með rafmótor eða díselvél en sölumaður tók sig til og reiknaði dæmið og kom þá í ljós að þó að borga þyrfti hærra verð fyrir rafmagnsútgáfuna þá var eldsneytis- og viðhaldssparnaður búinn að greiða upp mismuninn á vel innan við tveimur árum.“

Allt að 330 km á hleðslunni

Bílabúð Benna selur sendibíla frá Opel og fást þeir í þremur stærðum. Minnstur er Opel Combo, þá kemur Vivaro og loks Movano. Alla þessa bíla má fá í ýmsum stærðum og vélaútfærslum sem henta öllum rekstri. Movano má t.d. fá sem grindarbíla sem hægt er að smíða ofan á eftir þörfum, og sem smárútur sem taka allt að 17 farþega. Rafdrifinn Vivaro kom á markað á síðasta ári og var valinn sendiferðabíll ársins (International Van of the Year 2021) í desember síðastliðnum. Rafdrifnir Combo og Movano eru svo væntanlegir innan skamms. Vivaro fæst með 50 kWst og 75 kWst rafhlöðu sem veitir drægni frá 230 til 330 km á einni hleðslu.

Spurður hvaða þætti kaupendur hafa helst í huga þegar valið stendur á milli rafsendibíls og bíls með hefðbundinni aflrás, segir Tryggvi að drægnin sé oft efst á blaði. „Fyrir þá sem eru að fara margar stuttar ferðir innanbæjar er rafmagnssendibíll góður kostur en þeir sem aka langar vegalengdir daglega, s.s. þeir sem ferja vörur út á landsbyggðina, eru líklega betur settir með díselvél,“ útskýrir hann og bætir við að aðgengi að hleðslustöðvum hafi aldrei verið betra og yfirleitt auðvelt að stinga atvinnubílum í samband á bílastæðum margra fyrirtækja. „Þá er sjaldan mikill vandi að koma upp hleðslustöð t.d. á vörulager fyrirtækja þar sem hlaða má sendibíla yfir nótt og geta söluráðgjafar oft aðstoðað við valið á réttri stöð.“

Fyrir utan aukna hagkvæmni segir Tryggvi að rafmagnssendibílar hafi flestir þann kost að vera liprir í akstri, þægilegir og hljóðlátir. „Svo má ekki gleyma því að merktir bílar eru andlit einyrkjans og fyrirtækisins út á við og má reikna með að dag hvern sjái nokkur hundruð manns bílinn í umferðinni. Almenningur sér rafmagnsbíla í mjög jákvæðu ljósi og það getur bætt ímyndina að rafvæða senbílaflotann.“

Vinnuaðstaðan þarf að vera góð

Tryggvi segir kaupendur atvinnubíla hafa tileinkað sér annað og betra viðhorf við val á bílum. Liðin sé sú tíð þegar margir reyndu að skera við nögl og kusu að hafa eins lítinn búnað í bílunum og hægt er til að spara nokkrar krónur. Þess í stað geri fyrirtæki og einyrkjar sér grein fyrir mikilvægi þess að atvinnubílar séu þægilegir og vel útbúnir. „Framleiðendur mæta þessu kalli bæði með alls konar tækni sem einfaldar umgengni við bílinn og dregur úr hættunni á slysum,“ útskýrir Tryggvi og bendir t.d. á að Opel eigi í samstarfi við samtök þýskra baklækna um að hanna framúrskarandi bílsæti sem auðvelt er að sitja í langa vinnudaga. „Ef aðbúnaður ökumanns er góður þýðir það að minni líkur eru á veikindum vegna álags og þreytu og ýmiss konar öryggis- og aðstoðarbúnaður hjálpar til að draga úr líkunum á slysum sem aftur lágmarkar hættuna á óvæntum kostnaði og röskun á rekstri.“

Núna er fjármögnunarumhverfið með besta móti og að sögn Tryggva hafa mörg fyrirtæki gripið tækifærið og endurnýjað bílaflota sína. Bílabúðin getur tekið að sér að ganga frá fjármögnun kaupanna og rétt að minna á að sum lánafyrirtæki gefa afslátt af lántökugjöldum ef keyptur er rafmagnsbíll. Tryggvi minnir að lokum sérstaklega á langtímaleigu atvinnubíla sem einfaldi allt umstang tengt því að reka bíl:

„Viðskiptavinurinn greiðir þá fast mánaðarlegt gjald sem innifelur m.a. tryggingar, dekkjaskipti, skoðanir og viðhald. Það eina sem ekki er innifalið er bensínið og rúðupissið,“ útskýrir hann en þessi valkostur er boðinn í samstarfi við bílaleiguna Sixt. „Með þessu losnar fólk við mikla fyrirhöfn og þarf ekki að hugsa um annað en aksturinn og verkefni dagsins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: