GM með rafsendibílinn BrightDrop

FedEx Express verður fyrst fyrirtækja að taka nýju BrightDrop EV600sendibílana …
FedEx Express verður fyrst fyrirtækja að taka nýju BrightDrop EV600sendibílana í þjónustu sína. GM bindur miklar vonir við ökutækið. AFP

Bandaríski bílrisinn General Motors (GM) birti fyrir viku áform sín um smíði rafsendibíls er framleiddur verður undir merkinu BrightDrop. Markmið GM er að skapa nýtt vistkerfi til vöruafhendinga.

„BrightDrop boðar snjallari lausn við flutninga vöru og þjónustu,“ sagði GM-stjórinn Mary Barra er hún kynnti áform GM á tækni- og rafeindatækjasýningunni CES.

GM á í samstarfi við hraðsendingafyrirtækið FedEx um prófanir á nýju rafsendibílunum og svonefndri „eins stopps búðarlausn“. Stefnir í mikla samkeppni í dreifingu pakkasendinga en netverslunin Amazon er sögð stutt frá því að hleypa af stokkum eigin sendibílum frá frumkvöðlafyrirtækinu Rivian.

GM segir takmarkið með BrightDrop vera að bjóða upp á „samþætt vistkerfi rafrænnar framleiðslu, forrita og þjónustu“. Mun í boði verða flutningur frá vöruhúsi til smásöluverslunar svo og heimsendingaþjónustu, að sögn GM, sem ætlar sér skerf í markaðsgeira sem sagður er velta 850 milljörðum dala á ári og hefur stækkað hratt með aukinni netverslun.

„Rafeindabretti“ bílsins, BrightDrop EP1, verður rafdrifið og mun flytja vörurnar frá bíl heim að hurð. Verður það tilbúið til framleiðslu í ár. „Látið ykkur ekki koma á óvart að sjá eftir nokkra mánuði sendibílstjóra labba niður gangstéttina togandi EP1 á eftir sér,“ sagði Barra.

Fyrsti rafsendibíllinn af gerðinni EV600 verður kominn í almenna notkun seint á árinu, að sögn GM. Uppgefið drægi hans á fullri rafhleðslu er um 400 km. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: