Flestir spá í Toyota

Toyota Yaris er vinsæll bíll á Íslandi.
Toyota Yaris er vinsæll bíll á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir sem hyggja á bílakaup á næstunni spá flestir í Toyota, samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR-fyrirtækisins á því hvaða bíltegundir eru líklegastar til að verða fyrir valinu meðal væntanlegra kaupenda nýrra bíla.

Upplýsingarnar eru hluti af stórri bílakaupakönnun MMR sem varpar ljósi á óskir neytenda og afstöðu til mismunandi gerða bifreiða. Könnunin var framkvæmd dagana 30. desember til 11. janúar 2021 og var heildarfjöldi svarenda 2.002 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Aðrar helstu niðurstöður könnunarinnar eru þær, að Tesla mældist sjötta eftirsóttasta bíltegundin í könnun þessa árs en 6% svarenda kváðu hana vera sinn líklegasta kost við næstu bílakaup.

Eftirspurn eftir nýjum Volkswagen bifreiðum (6%) dróst saman á milli ára og fór bíltegundin úr öðru sæti á lista síðasta árs niður í það áttunda í könnun þessa árs.

Staða Toyota reyndist sterk meðal yngri svarenda en 29% þeirra á aldrinum 18-29 ára sögðu tegundina líklegast verða fyrir valinu, samanborið við 12-15% prósent svarenda annarra aldurshópa.

Nánar er greint frá könnuninni á Vefsíða MMR.

mbl.is