Rafbílar ættu að eldast vel

Rivian er einn af mörgum verulega spenanndi rafmagnsbílum sem væntanlegir …
Rivian er einn af mörgum verulega spenanndi rafmagnsbílum sem væntanlegir eru á markað á komandi miss-erum. Tómas Kristjánsson segir ósennilegt að rafmagnsbílar verði til sérstakra vandræða þegar þeir eldast.

Eftir því sem rafbílamenningin á Íslandi þroskast vakna nýjar spurningar hjá bíleigendum, svo sem um hvað má til bragðs taka þegar rafhlaðan á gömlum rafbíl er orðin þróttlítil og hvort eitthvað kunni að koma á óvart þegar kemur að tryggingum og langtímaviðhaldi rafmagnsbíla.

Tómas Kristjánsson er formaður Rafbílasambands Íslands og segir að viss misskilnings gæti um endingu rafhlaðna í rafbílum og endurnýtingu þeirra. Nokkur tilvik hafi komið upp þar sem rafhlaðan í sumum elstu rafbílum landsins hafi ekki haldið nægilega mikilli hleðslu og því óttist sumir að ef þeir kaupa nýjan rafmagnsbíl í dag gæti þurft að ráðst í kostnaðarsöm rafhlöðuskipti að áratug liðnum. „En rafhlöðutæknin í tíu ára gömlum rafmagnsbílum er eins og steinaldarverkfæri í samanburði við tæknina í þeim bílum sem eru á markaðnum í dag og næsta víst að rafhlaðan í glænýjum rafbíl muni duga lengur en sjálfur bíllinn.“

Tómas minnir líka á að jafnvel þó að elstu rafbílar kunni, eftir mikla notkun, að halda hleðslu sem nægir ekki fyrir daglegar samgönguþarfir eigandans, þá sé rafhlaðan verðmæt og mikill misskilningur að sá sem eigi gamlan rafbíl standi frammi fyrir því að neyðast til að borga hátt förgunargjald fyrir rafhlöðuna. Eru aðrir möguleikar í stöðunni en að greiða endurvinnslustöð fyrir að taka við rafhlöðunni.

„Við sjáum að í Evrópu eru að spretta upp fyrirtæki sem nánast sitja fyrir þeim sem þurfa að losa sig við gamla eða skemmda rafbíla því rafhlöðurnar er hægt að nýta í marga hluti. Sumir nota þær t.d. í sumarbústaðnum, hlaða með sólarsellum yfir daginn og hafa nægilega orku fyrir sjálfa sig á kvöldin. Þá geta rafhlöðurnar líka nýst í sjálfu rafdreifikerfinu og safnað á sig orku þegar eftirspurn er minni til að beina svo út í kerfið þegar toppar koma í rafmagnsnotkun,“ útskýrir Tómas. „Það er t.d. þekkt í Bretlandi að þegar landsmenn koma heim eftir vinnu, kveikja þeir á tekatlinum og setjast við sjónvarpið til að horfa á EastEnders og þurfa raforkuverin að vera í viðbragðsstöðu vegna þessa. Með því að nota kerfi gert úr bílarafhlöðum er næg orka til staðar til að hleypa út á kerfið við slíkar aðstæður.“

Auðvelt að nálgast varahluti

Ýmsar sögusaganir eru á kreiki, t.d. um að það geti valdið vandræðum að ekkert sjálfstætt bílaverkstæði á Íslandi sé fært um að sinna viðgerðum á rafhlöðum rafbíla og eigendur því upp á umboðin komnir með þess háttar þjónustu. Þá er annar kvittur á sveimi þess efnis að rafbílaframleiðendurnir kæri sig ekki um að selja sjálfstæðum verkstæðum varahluti.

Tómas segir að aðeins þurfi að heimsækja sérhæft verkstæði þegar átt er við sjálfa rafhlöðuna en að hvaða bifreiðaverkstæði sem er geti t.d. skipt um bremsur á rafmagnsbílum. „Og það er í rauninni það eina sem þarf að hugsa um: skipta um dekk reglulega og huga að bremsunum,“ útskýrir hann. „Tesla er eini framleiðandinn sem ég veit um sem var tregur til að selja varahluti til þriðja aðila en fyrirtækið var á endanum skikkað til þess. Allir aðrir framleiðendur hafa engar takmarkanir á sölu varahluta, a.m.k. ef um er að ræða almenna íhluti en ekki sjálfan rafhlöðubúnaðinn.“

Þarf nýja rafhlöðu eftir árekstur?

En hvað með ástand rafbíla eftir árekstur? Er eitthvað til í því að skipta verði um rafhlöðu ef bíll lendir í tiltölulega hörðum árekstri? „Eini framleiðandinn sem ég veit til að læsi rafhlöðunni sjálfkrafa í árekstri er BMW, a.m.k. fyrir bílinn i3, og gerist það þá aðeins ef þeir mörgu skynjarar sem eru í bílnum greina að mikið tjón hafi átt sér stað. Þarf þá meira til en að einn loftpúði blási út.“

Að því sögðu þá gæti verið ástæða til að skipta út rafhlöðu eftir árekstur rafbíls þó að ekki þætti nauðsynlegt að skipta um vél í bensínbíl sem lenti í sambærilegum árekstri. Tómas segir rafhlöðurnar hannaðar til að þola harkalega árekstra en að skemmdir geti þó leitt til þess að áframhaldandi notkun sé óskynsamleg. „Framleiðendurnir vilja vitaskuld ekki að bílar séu áfram í notkun ef rafhlaðan hefur orðið fyrir miklu hnjaski enda væri verulega óheppilegt ef það t.d. leiddi til þess að kviknaði í bílnum.“

Hafa sumir bent á að þetta gæti leitt til hærri iðgjalda en ella fyrir rafbíla enda muni reglur og viðmið framleiðenda verða til þess að í vægari árekstrum finni tryggingafélögin sig knúin til að ýmist borga fyrir nýja rafhlöðu eða kaupa hinn skemmda rafbíl af tryggingataka. Tómas á þó ekki von á að sú verði raunin. „Við getum verið viss um það að allir sérfræðingar tryggingafélaganna eru á kafi í því að skoða hvert raunverulegt tjón félaganna er vegna tjóna þar sem rafbílar koma við sögu. Ég hef enga trú á því að útkoman verði hærri iðgjöld á rafbíla enda væri það mjög óvinsælt í ljósi þess að ekki hefur tíðkast fram til þessa að hafa misjöfn iðgjöld eftir því hvort um er að ræða tryggingu fyrir rafmagns-, bensín- eða díselbíl.“

Tómas Kristjánsson
Tómas Kristjánsson mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: