Scania stendur sig best í eldsneytisskilvirkni samkvæmt ESB

Scania G 410 4×2 CNG.
Scania G 410 4×2 CNG.

Fjögur ár í röð hefur Scania unnið hin virtu „Green Truck“ verðlaun. Nú staðfesta tölur frá framkvæmdastjórn ESB að Scania stendur sig best meðal stórbílaframleiðenda í að draga úr losun koltvísýrings, að því er fram kemur í tilkynningu.

Vörubílar, rútur og langferðabílar valda fjórðungi koltvísýringslosunar vegna vegasamgangna innan ESB og 6% heildarlosunar innan ESB. Þrátt fyrir úrbætur í sparneytni á undanförnum árum er losun enn að aukast, sérstaklega vegna aukinnar vöruflutningaumferðar um vegi.

Árið 2019 lögleiddi ESB fyrstu koltvísýringslosunarstaðla fyrir þungaflutningaökutæki og settu markmið um að draga úr meðallosun milli 2025 og 2030. Samkvæmt nýju reglunum þurfa framleiðendur að draga úr losun koltvísýrings frá nýjum vörubílum um 15% að meðaltali frá 2025 og 30% frá 2030, samanborið við magnið 2019.

Nýlega gaf framkvæmdastjórn ESB út tölfræði um koltvísýringslosun frá nýjum vörubílum fyrir hvern stórbíl sem skráður er í sambandinu frá júlí 2019 til júní 2020. Þessi gildi eru grunnurinn að takmörkununum í kolttvísýringslöggjöfinni og verða grundvöllur vegatolla.

Í skýrslunni skarar Scania fram úr m.t.t. til orkuskilvirkni og lítillar koltvísýringslosunar, 4,7% undir koltvísýringstakmarki ESB. Scania er eini stórbílaframleiðandinn sem er greinilega undir takmarki ESB, flestir aðrir eru ofan við.

„Koltvísýringstölurnar sem ESB gaf út sýna að Scania er augljós markaðsleiðtogi í eldsneytisnotkun. Þessar tölur eru byggðar á viðurkenndum prófunum á íhlutum og endurspegla einstaka langtímavinnu Scania varðandi loftaflfræði og aflrás,” segir Henrik Wentzel, yfirráðgjafi í áætlanagerð vöru hjá Scania í tilkynningu frá Kletti, umboðshafa Scania á Íslandi.

„Kosturinn við vottuðu koltvísýringsgildin sem ESB gefur út er að allir verða að reyna að reikna á sama hátt. Þetta er sanngjarnasta leiðin í boði til þess að bera saman losun milli framleiðenda,“ segir Wentzel ennfremur.

Andreas Follér, yfirmaður sjálfbærni hjá Scania, segir tölurnar frá framkvæmdastjórn ESB einnig sýna að Scania sé algjörlega á réttri leið með að ná vísindamiðuðu takmarki sínu, sem er að draga úr koltvísýringslosun ökutækja sinna í notkun um 20% fyrir 2025 samanborið við 2015.

mbl.is