122% aukning í sölu nýrra bíla

Bílar á lager í Sundahöfn.
Bílar á lager í Sundahöfn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sala nýrra fólksbíla í nýliðnum júní jókst um rúmlega 122% miðað við júní í fyrra, en alls voru skráðir 1.834 nýir fólksbílar nú en 824 í júní 2020.

Í heildina eftir fyrstu sex mánuði ársins hefur salan aukist um 44,1% miðað við sama tímabil í fyrra. Í ár hafa selst 6.042 nýir fólksbílar samanborið við 4.193 nýja fólskbíla í fyrra. 

Til einstaklinga seldust 606 nýir fólksbílar í júní saman borið við 428 á sama tíma í fyrra sem er aukning 41,6% milli ára. Það sem af er ári hafa selst 2.704 nýir fólksbílar til einstaklinga en í fyrra á sama tíma voru þeir 2.441.

Almenn fyrirtæki (önnur en ökutækjaleigur) keyptu 239 nýja fólksbíla í júní í ár en 160 í júní í fyrra. Það sem af er ári hafa selst 1.020 nýir fólksbílar til almennra fyrirtækja en í fyrra á sama tíma voru þeir 869. Er aukning milli ára 17,4%.

Það sem af er ári hafa verið skráðir 2292 nýir fólksbílar í ökutækjaleigu samanborið við 862 bíl í fyrra og er því aukning í sölu fólksbíla til ökutækjaleiga tæplega 166%.

Nýorkubílar (rafmagns-, tengiltvinn-, tvinn- og metanbílar) eru 65,2 % allra seldra nýrra fólksbíla á árinu. Hlutfall nýorkubíla heldur áfram að aukast jafnt og þétt  (rafmagn- 20,5%, tengiltvinn- 23,8% og tvinn- 20,8%) en þetta hlutfall var í heildina 43% á sama tíma á síðasta ári. 

Toyota var söluhæsta merkið í júní og seldi þá 344 fólksbíla. Í öðru sæti varð Kia með 261 bíla og Tesla í þriðja sæti með 172 fólksbíla skráða.  

mbl.is