Morgan kynnir þriggja hjóla bíl upp úr þurru

Eins og sjá má af myndunum er Super 3 einkar …
Eins og sjá má af myndunum er Super 3 einkar fallegt ökutæki. Er næsta víst að ökumaður upplifir sterka tengingu við veginn og umhverfi sitt. Ljósmynd / Morgan

Breski bílaframleiðandinn Morgan kom á óvart fyrir röskri viku þegar fyrirtækið svipti hulunni af nýjum þriggja hjóla Super 3.

Sögu Morgan má rekja allt aftur til ársins 1910 en reksturinn er tiltölulega smár í sniðum og ár hvert framleiðir fyrirtækið um það bil 850 handsmíðaða bíla. Hönnuðir Morgan eru ekki þekktir fyrir að elta nýjustu tískustrauma og eru bílar fyrirtækisins þvert á móti gamaldags í útliti, með klassískar útlínur sem mörgum þykja ómótstæðilegar.

Þriggja hjóla bílar hafa verið viðloðandi Morgan alla tíð og segir sagan að fyrstu þriggja hjóla bílar fyrirtækisins hafi verið smíðaðir til að fara á svig við breska bílaskatta, því ef fjórða hjólið vantaði mátti flokka bílana sem mótorhjól.

Morgan endurvakti þriggja hjóla hönnunina árið 2011 eftir margra áratuga hlé, og hélst hönnun ökutækisins óbreytt allt þar til nú að Super 3 er kynntur til sögunnar endurhannaður frá grunni.

Morgan Super 3
Morgan Super 3

Engin raketta en beintengdur við veginn

Super 3 er knúinn áfram af 1,5 lítra þriggja strokka vél frá Ford sem framleiðir 118 hestöfl. Eru það engin ósköp, og er bíllinn sjö sekúndur að fara úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Segja aðdáendur Morgan að það sé ekki aðalatriði að geta spanað sem hraðast í beinni línu heldur að njóta skemmtilegra aksturseiginleika og hrárrar akstursupplifunar á þessum lauflétta bíl. Super 3 fær að láni sama beinskipta gírkassann og notaður er í Mazda Miata og vegur 635 kíló án eldsneytis. Framleiðandinn hefur ekki enn gefið upp hversu miklu bensíni vélin eyðir eða hve mikinn koltvísýring hún losar.

Það einkennir marga bíla í þessum flokki að hafa takmarkað notagildi og er greinilegt að Morgan vill að Super 3 henti í fleira en stuttan hring út í sveit og rakleiðis aftur heim. Gerir hönnunin ráð fyrir að setja megi festingar á valda staði á bílnum utanverðum þar sem smella má töskum og farangursgrindum sem bifast ekki á meðan ekið er en auðvelt er að losa af þegar komið er á áfangastað.

Farþegarými og sæti eru klædd með hátækniefnum sem þola vel veður og vind, og þó ekki sé pláss fyrir hólf og skúffur eru teygjunet innan á vinstri og hægri hlið farþegarýmisins þar sem skorða má smáhluti.

Verksmiðjuverð Super 3 er tæplega 35.000 pund eða rétt rúmar 6 milljónir króna en þar sem útblásturstölur liggja ekki fyrir er ekki hægt að reikna að svo stöddu hvað bíllinn myndi kosta kominn á götuna á Íslandi. ai@mbl.is

Morgan Super 3
Morgan Super 3
Morgan Super 3
Morgan Super 3
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: