„Að gera við tjónaðan bíl er dauðans alvara“

Ingþór hjá BL segir ekki hægt að laga burðarvirki úr …
Ingþór hjá BL segir ekki hægt að laga burðarvirki úr áli og koltrefjum með sömu aðferðum og notaðar eru á burðarvirki úr stáli. Erfitt er fyrir neytendur að vita hvort rétt var að verki staðið. „Ytra byrðið getur verið svakalega flott en allt í kaldakoli undir yfirborðsviðgerðunum.“ Eggert Jóhannesson

Ingþór Ásgeirsson segir mikilvægt að bæði neytendur og tryggingafélög skilji að beita þarf hárréttum aðferðum þegar gert er við skemmdir á burðarvirki bíls úr áli eða koltrefjum. Skiptir miklu að fylgja stöðlum framleiðenda upp á hár því annars er hætt við að dragi úr styrkleika burðarvirkisins og það veiti ekki næga vernd í slysi.

Ingþór er framkvæmdastjóri þjónustusviðs BL en verkstæði bílaumboðsins hefur á síðastliðnum árum fengið sérstaka vottun hjá bæði Jaguar – Land Rover og BMW – Mini sem tryggir að réttingar- og málningarvinna fullnægir ströngustu kröfum. Segir Ingþór hægt að treysta því að bílar sem gert er við samkvæmt stöðlum bílaframleiðendanna aka út af verkstæðinu með sömu öryggiseiginleika og ef bílarnir væru nýkomnir úr verksmiðju framleiðandans.

„Um var að ræða langt og kostnaðarsamt ferli, og sem dæmi gera staðlar eins framleiðandans þá kröfu að við notum fullkomnari gerð af hnoðbyssu en þær sem við áttum fyrir á verkstæðinu og kallaði þetta eina verkfæri á fjárfestingu upp á 2,5 milljónir króna. Eru þessir staðlar þó ekki settir af handahófi heldur er nauðsynlegt að hafa ákveðinn styrkleika í hnoðum á ákveðnum svæðum til að burðavirkið hafi rétta eiginleika,“ útskýrir Ingþór.

Setja ekki álið í réttingabekk

Viðgerðir á burðarvirki úr stáli eru tiltölulega einfaldar í samanburði við ál og koltrefjar og segir Ingþór að setja megi stálgrind í réttingabekk, og rétta upp að vissu marki án þess að styrkleiki stálsins breytist. Þróunin hefur hins vegar verið í þá átt að nota æ meira af áli við smíði bíla, m.a. til að gera þá léttari, og getur það dregið úr styrkleika áls ef það er meðhöndlað með sama hætti og stál. „Í staðinn kalla viðgerðirnar á að taka grindar- og stuðarabita í sundur á ákveðinum stöðum og skipta þeim út fyrir nýja. Svipaða sögu er að segja um koltrefjaefni, sem við sáum m.a. notað í i3 og i8 frá BMW, en ef t.d. er komin rispa með vissa dýpt í koltrefjabita þá er ekkert sem heitir að slípa rispuna niður og mála yfir, eða toga koltefjarnar til, og verður að skipta um skemmda bitann. Rétt meðhöndlun og rétt efnisnotkun er aðalatriði og þær breytingar sem orðið hafa hjá bílaframleiðendum eru þess eðlis að starf bifreiðasmiðsins er farið að minna um margt á starf flugvirkjans sem þarf að fullnægja mjög ströngum kröfum og sækja endurmenntun með reglulegu millibili til að viðhalda réttindum sínum og mega framkvæma viðgerðir á æ fullkomnari farartækjum.“

Huga þarf að fleiru en burðarvirkinu og segir Ingþór að rafhlöður rafmagns- og tvinnbíla kalli á sérstök vinnubrögð, bæði þegar unnið við rafhlöðuna sjálfa en einnig þegar átt er við aðra hluta bílsins. „Rafhlaðan má t.d. ekki vera of lengi í bakstri inni í málningarklefa, en þegar bíll er sprautaður er hann hitaður upp að 60 gráðum. Verður að mæla ferlið vel og slökkva á bakstrinum tímanlega því annars getur rafhlaðan byrjað að skemmast.“

Snýst um meira en beyglur

Einnig er brýnt að gera rétt við öryggisbúnað bílsins. „Radarar, skynjarar og myndavélar fylgjast með því sem gerist umhverfis bílinn og grípa inn í til að afstýra árekstrum við önnur ökutæki, gangandi vegfarendur og dýr, og alls kyns annar búnaður er fyrir hendi sem dregur úr slysahættu. Þetta er ekki ódýr búnaður og iðulega þarf að skipta um hann eftir árekstur. Eru þó dæmi um að búnaðinum sé ekki skipt út og höfum við fengið til okkar bíla þar sem villuboðum frá skemmdum öryggisskynjurum hefur einfaldlega verið eytt út úr bílatölvunni og þeir settir aftur út á götuna.“

Þessu tengt segir Ingþór að eigandi bíls sem lent hefur í tjóni verði að geta treyst því að búið sé að skipta um loftpúða sem sprungið hafa út. „Þá eru bifreiðar iðulega með sprengibúnað undir húddinu sem lyftir húddi bílsins upp ef ekið er á gangandi vegfaranda til að minnka líkurnar á að hann slasist illa. Gætu óprúttnir aðilar sem gera við tjónabíl einfaldlega soðið þennan búnað saman, núllað út villurnar í tölvukerfinu, og selt grunlausum kaupanda.“

Bendir Ingþór á að fyrir leikmann sé illmögulegt að sjá ef viðgerð er ábótavant. „Það eina sem fólk hefur til að leggja mat á viðgerð á skemmdum bíl er hvort tekist hefur að fjarlægja allar beyglur, og hvort greina má litamismun í lakkinu. Ytra byrðið getur verið svakalega flott en allt í kaldakoli undir yfirborðsviðgerðunum.“

Lítið fylgst með gæðum viðgerða á tjónabílum

Að sögn Ingþórs vantar betri skilning á mikilvægi þess að gera rétt við burðarvirki úr áli og koltrefjum en tryggingafélögin stundi hins vegar mjög virkt og gott eftirlit með viðgerðum og gera t.d. skýrar kröfur um að bifreiðasmiðir ljósmyndi skemmda hluta bílsins vandlega, myndi alla varahluti, og taki einnig ljósmyndir til að staðfesta að skemmdir partar hafi verið fjarlægðir og eyðilagðir, ásamt því að þeir leggja fram reikninga fyrir varahlutum.

Segir Ingþór hins vegar stóra glufu í kringum sölu tjónabíla en tryggingafélögin hafa það fyrir reglu að selja á uppboði bíla sem ekki þykir borga sig að gera við. „Það eru alls konar aðilar sem kaupa þessa bíla og til að setja þá aftur á götuna þarf bara að senda Samgöngustofu staðfestingu á að gert hafi verið við bílinn. Ekki þarf að leggja fram neinar myndir af viðgerðarferlinu eða leggja fram reikninga sem sönnun þess að keyptir hafi verið varahlutir fyrir þá parta sem hefði átt að skipta um. Samgöngustofa getur kallað eftir gögnum en það er ekki endilega reglan.“

Bendir Ingþór á að það gæti freistað óprúttinna aðila að kaupa tjónabíl og stytta sér leið á ýmsum stöðum í viðgerðinni, og selja síðan kaupanda sem er ekki að fá eins góðan og öruggan bíl og hann heldur. „Bíllinn er kannski gullfallegur eftir viðgerðina, nýsprautaður og eins og kominn beint úr kassanum, og seljandinn kann að bjóða góðan afslátt fyrst um tjónabíl er að ræða, en hann er þá kannski búinn að spara sér nokkrar milljónir með því að gera ekki við bílinn með réttum hætti og skipta ekki um öryggisbúnað.“

Getur leitt til alvarlegri slysa

Miklir hagsmunir eru í húfi og segir Ingþór þörf á vitundarvakningu. Eigendur bíla verði að vanda valið á verkstæðum, kaupendur verði að skoða viðgerðarsögu notaðra bíla í þaula og tryggingafélögin að ganga úr skugga um að röng vinnubrögð séu ekki að leiða til þess að bílar með óvirkan öryggisbúnað og veiklað burðarvirki fari út í umferðina. „Að gera við tjónaðan bíl er dauðans alvara og má finna dæmi þess hér á landi að slys hafi orðið alvarlegri en ella, og jafnvel orðið manntjón, vegna þess að rangt var staðið að viðgerðum. Eru þessi mál litin svo alvarlegum augum í Evrópu að þar féll t.d. dómur þar sem sannað var að starfsmaður réttingaverkstæðis gerði hlutina ekki rétt sem leiddi til mannskaða í umferðinni. Var sá einstaklingur sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi.“

Samhliða vitundarvakningunni þarf, að sögn Ingþórs, að skapa ákveðna hvata. Segir hann að viðgerðum á verkstæði BL fylgi t.d., með BMW-bílum, vottorð um að rétt hafi verið að öllu staðið, sem staðfestir að bíllinn eigi að vera jafn öruggur og sterkbyggður og ef hann væri nýsmíðaður. „Þökk sé réttindakerfi okkar, og þeim ströngu stöðlum sem við vinnum eftir, þá þurfum við heldur ekki að slá af uppítökuverði þessara bíla þegar eigendur þeirra koma til okkar til að kaupa nýjan bíl. Undir venjulegum kringumstæðum fengist lægra verð fyrir bíl með tjónasögu en eftir viðgerð hjá okkur vitum við að bíllinn er jafngóður og ef hann hefði aldrei lent í tjóni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: