155% fleiri bílar seldir

Gífurleg aukning er á sölu fólksbíla til ökutækjaleigu frá því …
Gífurleg aukning er á sölu fólksbíla til ökutækjaleigu frá því á sama tíma í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sala nýrra fólksbíla til ökutækjaleiga er 155% meiri það sem af er ári en á sama tíma í fyrra, að því segir í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Á árinu 2022 hafa verið seldar 3333 nýjar fólksbifreiðar í ökutækjaleigu samanborið við 1309 bíla á sama tíma í fyrra.

Sala nýrra fólksbíla er 63% prósent meiri í maí í ár en í fyrra og munar mest um gífurlega aukningu á sölu bíla í ökutækjaleigu.

Fleiri rafbílar

Rúmlega 57% allra seldra nýrra fólksbíla á árinu eru nýorkubílar, mest rafmagnsbílar eða 29,46% og næst mest tengiltvinnbílar 27,57%. Þetta er aukning frá því fyrra því hlutfallið á sama tíma var þá 46%, eða 11 prósentustigum minna en í ár.

Mest selda fólksbílategundin það sem af er ári er Toyota með 1291 selda bíla, í öðru sæti er Hyundai með 679 en Kia er þriðja mest selda fólksbílategundin, með 672 seld eintök.

mbl.is