Dagar taka fjórtán rafbíla frá BL í notkun

Á myndinni eru frá vinstri: Jóhann Berg Þorgersson, sölumaður atvinnubíla …
Á myndinni eru frá vinstri: Jóhann Berg Þorgersson, sölumaður atvinnubíla hjá BL, Finnbogi Gylfason, fjármálastjóri Daga, Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Daga, og Knútur Steinn Kárason, vörumerkjastjóri á sölusviði BL.

Ræstinga- og fasteignaumsjónarfyrirtækið Dagar hf. tóku nýverið í þjónustu sína fjórtán nýja rafbíla af gerðinni Renault Zoe frá BL. Rafbílavæðingin er mikilvægur hluti aðgerðaáætlunar fyrirtækisins sem hefur að markmiði að draga úr kolefnisspori um 80% eða 200 tonn á næstu fjórum árum.

„Við gerum okkur grein fyrir að til þess að árangur náist í umhverfismálum sé nauðsynlegt að vinna skipulega og markvisst að nauðsynlegum aðgerðum í málaflokknum. Við fylgdumst með og greindum umfang kolefnislosunar fyrirtækisins og sáum að bílaflotinn var stærsti einstaki áhrifavaldur kolefnislosunar frá starfseminni,“ segir Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Daga, í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þá kemur fram að fyrirtækið hafi fjárfest í hleðsluinnviðum og rafbílum á undanförnum misserum.

„Með þessari nýju fjárfestingu erum við að stíga mikilvægt skref að markmiði okkar um að vera alfarið á rafdrifnum bílum árið 2026, en alls eru um 85 bílar í flota fyrirtækisins,“ segir Pálmar Óli.

mbl.is