Bíllinn enn í fyrsta sæti þrátt fyrir ókeypis samgöngur

Þrjú ár eru liðin frá því stjórnvöld í Lúxemborg ákváðu að gera allar almenningssamgöngur í landinu gjaldfrjálsar í því skyni að draga úr mengun og umferðarteppum. Þrátt fyrir þessar aðgerðir stjórnvalda er einkabíllinn áfram eins og kóngur í ríki sínu.

Sé umferðin sæmilega greið, þá tekur það innan við klukkustund að aka frá Weiswampach, sem er nyrst í Lúxemborg við þýsku og belgísku landamærin, að Dudelange í suðri, sem er rétt við landamærin að Frakklandi.

Það þótti því þjóðráð að gera þessa tilraun í smáríkinu árið 2020, en íbúar landsins eru aðeins 650.000 talsins. Með þessu varð ókeypis í allar almenningssamgöngur á borð við lestir og strætisvagna.

Það var þó við ramman reip að draga því bílaeign í Lúxemborg hefur verið sú næsthæsta í Evrópu á eftir Póllandi. Í Lúxemborg er 681 bifreið á hverja 1.000 íbúa.

Íbúar í Lúxemborg eru ekki reiðubúnir að sleppa takinu af …
Íbúar í Lúxemborg eru ekki reiðubúnir að sleppa takinu af bifreiðinni þrátt fyrir að það kosti ekkert að nýta sér almenningssamgöngur. Ljósmynd/Colourbox

Fylla á tankinn í landinu

Þá fjölgar bifreiðum í landinu umtalsvert því daglega aka fjölmargir yfir landamærin til að sækja vinnu í Lúxemborg. Ökumenn sem þurfa að aka langar leiðir nýta oftast tækifærið til að fylla á tankinn í landinu þar sem eldsneytisskattar eru lágir. 

„Ég segi oft að Þjóðverjar smíða bíla og Lúxemborgarar kaupi þá,“ segir aðstoðarforsætisráðherra Lúxemborgar, Francois Bausch, í léttum dúr, en hann er m.a. yfir almenningssamgöngum í landinu. 

Þremur árum eftir að hætt var að rukka fyrir notkun á almenningssamgöngum er fátt, sem fyrr segir, sem bendir til þess að einkabílnum verði lagt. Bausch kveðst þó taka eftir minni umferð í höfuðborginni. 

Árið 2020 var ákveðið að gera almenningssamgöngur í landinu gjaldfrjálsar.
Árið 2020 var ákveðið að gera almenningssamgöngur í landinu gjaldfrjálsar. AFP
mbl.is