Kínverski drekinn er mættur

Innan fárra mánaða verður öll vörulína BYD-fólksbílanna komin til landsins. …
Innan fárra mánaða verður öll vörulína BYD-fólksbílanna komin til landsins. Þar geta flestir fundið eitthvað við sitt hæfi.

Ég var staddur í úthverfi Lundúna 3. nóvember 2016 og þurfti að koma góssi út á flugvöll. Frumburðurinn var á leiðinni og ég hafði reiknað það út að barnavagn, vagga og sitthvað fleira væri svo miklu ódýrara í ríki Elísabetar II. en heima á Íslandi að það borgaði sig að bjóða tengdó út og heim sama daginn til að fjárfesta í herlegheitunum (það verður að fylgja sögunni að hún vann hjá Icelandair á þessum tíma og boðið var eins og öfugur samruni á fyrirtækjamarkaði. Ég flaug frítt með henni).

En hví er ég að rifja upp sögur úr fornöld? Jú þennan dag settist ég upp í leigubíl (sem ég pantaði að sjálfsögðu hjá Uber) af tegund sem ég hafði aldrei séð fyrr né síðar. BYD. Ég spurði bílstjórann, sem var frá Austurlöndum nær, hvað þessi skammstöfun stæði fyrir og ekki stóð á svari: Build your dreams. Það mátti ekki minna vera! Ég var vissulega að byggja skýjaborgir framtíðarinnar með dótinu fyrir erfðaprinsinn og þá var vissulega viðeigandi að bera björg í bú á einhvers konar draumasmiðju!

Og svo settist ég upp í fákinn. Rafbíll var það, sem var í sjálfu sér tíðindamikið fyrir stóran leigubíl, en upplifunin átti lítið skylt við draum, miklu frekar eitthvað annað. Bíllinn var stirður og plastið í innréttingu og hurðaklæðningu í slíku magni að forstjóri Endurvinnslunnar hefði klökknað, hefði hann verið um borð. Bilstjórinn sterklegur og upphandleggirnir virtust helst sækja þjálfun í glímutök við stýrið. Minnti mest á dagana áður en vökvastýrið kom til sögunnar.

Seal er sendur á markað til þess að skáka Teslu …
Seal er sendur á markað til þess að skáka Teslu 3 og margt finnst mér benda til þess að þarna sé um meira en verðugan keppinaut að ræða. Gæðin eru mikil, smíðin nákvæm og mér er sagt að verðið verði gott.

Athyglisverður samanburður

Gott og vel. Nóg um þessa lífsreynslu. Fyrir nokkru var ég beðinn að taka það að mér að hitta menn í Katalóníu. Þeir ætluðu sér að kynna til sögunnar nýjustu bílana úr smiðju BYD. Ekki stóð á svari frá mér. Ég iðaði í skinninu að bera saman hestvagninn í London og nýjustu afurðirnar. Ég vissi reyndar að samanburðurinn yrði athyglisverður enda hef ég haft augun á BYD allar götur frá 2016. Ekki bara vegna þess að Warren Buffet hefur fjárfest hressilega í fyrirtækinu heldur vegna þeirrar staðreyndar að þarna er um fyrirtæki að ræða sem getur haft viðlíka áhrif og jafnvel meiri en Tesla á orkuskipti heimsins.

Ha? Félaga mína, sem elska Tesla meira en internetið sjálft, rekur í rogastans við þessa fullyrðingu. Þeir eru sem betur fer búnir ABS (eða öðru viðlíka kerfi) en þrátt fyrir það finnur maður gúmmísteikarilminn í loftinu.

BYD er ekki venjulegur bílaframleiðandi. Og reyndar má halda því fram að fyrirtækið sé flest annað en slíkur. Vissulega framleiðir það gríðarlegan fjölda bíla á ári hverju, og þeim á eftir að fjölga svo um munar á komandi árum. En framleiðslan og tækniþróunin teygir sig svo miklu víðar. Allt sem við kemur orkuskiptum, orkuöflun og -notkun. Varðveislu orku til skamms tíma og hvernig hægt er að hagnýta rafmagn í rekstri borga, í almenningssamgöngum, flutningakerfum og jú á vettvangi einkabílsins.

Í dag starfa 600 þúsund manns hjá fyrirtækinu sem skráð er á markað í Kauphöllinni í Sjanghaí. Og það er ekki að rumska. Það hefur nú þegar komið sér fyrir á bílamarkaðnum, m.a. í Evrópu þar sem tugir þúsunda bíla eru komnir á markaðinn (þeir eru meira að segja orðnir 10.000 í Ísrael!). Og nú hefur eyjan í norðri einnig komist á radar hjá þeim. Ekki aðeins af sjálfsdáðum. Næstum öll bílaumboðin á Íslandi hafa gert tilraun, með einum eða öðrum hætti, til að ná athygli BYD. Einhverjir myndu líkja tilburðunum við tilhugalíf páfuglsins (en það væri of mikið fyrir virðulega bílaumfjöllun í Morgunblaðinu). Þess í stað vitnum við til Geirs H. Haarde. BYD þarf ekki að sætta sig við neitt annað en sætustu stelpuna á ballinu og valið liggur fyrir.

Dolphin er snaggaralegur og vel smíðaður. Það er magnað að …
Dolphin er snaggaralegur og vel smíðaður. Það er magnað að negla niður á honum á 100 km hraða og finna hversu vel hann ræður við krefjandi aðstæður. Þarna er um verðugan keppinaut við Nissan Leaf að ræða.

Mikil reynsla af markaðnum

Það er reynslubolti á markaðnum sem stendur með pálmann í höndunum. Úlfar Hinriksson, sem oftast er kenndur við hina japönsku víni sína hjá Suzuki, hefur fengið það hlutverk að ryðja kínverska drekanum braut inn á íslenska markaðinn. Hann er búinn að standa vaktina í nærri fimm áratugi en upplifir nú sennilega mestu umskipti á bílamarkaðnum sem riðið hafa yfir á öllu því tímabili.

Auðvitað er erfitt að dæma um hvað í vændum er, en margt bendir þó til þess að um sé að ræða stóra skriðu sem breyta muni miklu í landslaginu sem fyrir verður. Fyrir því eru nokkrar ástæður en helstar eru þrjár. Í fyrsti lagi sú staðreynd að BYD kynnir á skömmum tíma til sögunnar 5-6 bíla rafbílalínu sem dekkar stóran hluta markaðarins. Í annan stað (þetta á ekki að hljóma eins og skilaboð frá utanríkisráðuneytinu á tíunda áratugnum) það að gæðin á bílsmíðinni eru eftirtektarverð. Í þriðja lagi það að verðlagningin er samkeppnishæf. Raunar svo að hún velgir Tesla undir uggum og öllum hinum svo mjög að mönnum verður bumbult í sjálfum sundmaganum (bíllinn er 530 hestöfl og ég náði honum á 100 km hraða á 3,8 sekúndum – fulltrúi BYD sem var á staðnum fullyrti að mælingin hefði reynst 3,6 sekúndur ef ég væri grennri).

Meðal þess sem BYD býður upp á er stór snertiskjár …
Meðal þess sem BYD býður upp á er stór snertiskjár (BYD framleiðir iPad fyrir Apple) og þessum gerðarlegu skjáum er með einni skipan hægt að snúa upp á endann. Hvernig væri að lesa Bílablað Moggans þarna?

Fleiri týpur bætast fljótt í flóruna

Þessum markaðssviptingum mun sjá stað strax undir lok þessa mánaðar. Þá mun Vatt (fyrirtækið sem er umboðsaðili BYD á Íslandi og selur raunar nú þegar kínversku rafbílana Maxus og Aiways) kynna tvo bíla til leiks: Han og Atto III. Ólíkir bílar úr smiðju BYD en varpa þó ágætu ljósi á taktinn sem þar er sleginn.

Fyrrnefndi bíllinn, Han, er ásamt nokkrum öðrum undirtegundum BYD kenndur við eina af valdaættum Kína fyrr á öldum (aðrar slíkar eru Tang, Song og Quin). Þar er um að ræða tiltölulega stóran og fjórhjóladrifinn fólksbíl sem er hlaðinn aukabúnaði og er m.a. ætlað að keppa við S-bílinn frá Tesla. Hinn er praktískur fjölskyldubíll, rúmgóður og á eftir að marka sér stöðu í hópi vinsælla rafbíla hér á landi. Hann byggist á hinni svokölluðu e-platform 3.0-tækni (líkt og Dolphin og Seal) sem er undirvagn sem hannaður er frá grunni, aðeins fyrir rafbíla, og rafhlaðan sem fylgir þeim boðar einnig miklar nýjungar líkt og rakið er í stuttu máli hér til hliðar.

Síðar á árinu bætast svo fleiri bílar við. Tvo þeirra komst blaðamaður á stefnumót við á Spáni í liðinni viku, Dolphin og Seal. Afar ólíkir bílar en líkt og Han og Atto vitna þeir um breidd og ólíka styrkleika framleiðandans. Annar stór og snarpur, hinn smærri, praktískur og ljúfur í lund. Sá fyrrnefndi er að ég held kynntur til sögunnar sem svar BYD við þristinum frá Tesla. Hinn höfðar til þeirra sem ánetjast hafa þægindarammanum sem LEAF úr smiðju Nissan hefur fyllt svo vel út í og jafnvel þeim sem ID3 frá Volkswagen hefur markað sér.

Atto III er ekki skemmtilegasti bíllinn frá BYD en hann …
Atto III er ekki skemmtilegasti bíllinn frá BYD en hann er fyrir hagsýnt fólk sem hugsar um praktískar hliðar lífsins. Nóg er af slíku fólki í umferðinni eins og annars staðar.

Stórtíðindi hvað sem öðru líður

Tvennt er það sem telst sérstaklega fréttnæmt í tengslum við aukin umsvif BYD á Evrópumarkaði. Í fyrsta lagi það að fyrirtækið er nú að bjóða upp á vandaða smíði og mikla tækni sem stenst flestum eða öllum keppinautum snúning. Hitt er það að um er að ræða risafyrirtæki sem er núna rétt að byrja að hnykla vöðvana. Það ætlar sér stóran sess á markaðnum og hefur vopnin til þess að láta það gerast. Sennilega er koma BYD á íslenska markaðinn síst minni tíðindi en þegar fyrstu Teslurnar tóku að renna ljúflega um göturnar fyrir örfáum árum.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 18. apríl.

Rafhlaðan e-platform 3.0 er nýjasta tækniundrið frá BYD og verður …
Rafhlaðan e-platform 3.0 er nýjasta tækniundrið frá BYD og verður í boði í Dolphin og Seal. Hún er ekki viðbót við undirvagninn heldur mikilvægur hluti hans. Svokölluð blað-rafhlaða er byggð upp á örþunnum álþynnum sem liggja eins og hunangsbú og hafa slíkan styrk að rafhlaðan er mikilvægur hluti í öryggisburði bílsins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: