BMW 218d Active Tourer er framhjóladrifinn fjölnotabíll og sá fyrsti sinnar tegundar frá hinum þýska framleiðanda. Í þessum lipra bíl er að finna fínasta BMW.
BMW 218d Active Tourer er framhjóladrifinn fjölnotabíll og sá fyrsti sinnar tegundar frá hinum þýska framleiðanda. Í þessum lipra bíl er að finna fínasta BMW.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það þóttu ekki lítil tíðindi þegar út spurðist að BMW hygðust setja á markað lítinn og nettan bíl í fjölnotaflokki eða MPV (sem stendur fyrir multi purpose vehicle).

Það þóttu ekki lítil tíðindi þegar út spurðist að BMW hygðust setja á markað lítinn og nettan bíl í fjölnotaflokki eða MPV (sem stendur fyrir multi purpose vehicle). Bílar frá BMW hafa iðulega haft á sér mjög afgerandi karakter bíla þar sem aksturseiginleikar eru allt – slagorðið til margra ára er nú einu sinni „The Ultimate Driving Machine“ og það segir í reynd allt sem þarf. Þegar í ljós kom að umræddur fjölnotabíll yrði framhjóladrifinn féll hreintrúarfólkinu allur ketill í eld. Var erfðaefnið sem batt bílafjölskylduna svo rækilega saman að þynnast út í einhverja vitleysu? Nei, góðu fréttirnar eru að það er ekki svo.

Útlitið sver sig í ættina

BMW hafa reyndar verið duglegir að senda frá sér bíla í alls kyns milliflokkum hin seinni misseri og má þar nefna 1 Series, X4 og X6, sem falla í flokka sem BMW skipti sér lítt af hér á árum áður. Menn vissu hvar þeir höfðu þristinn, fimmuna og sjöuna, hvað þá 850 ofurbílinn, sælla minninga, og mikið flóknara var þetta ekki. Nú er öldin önnur og flóran hefur aldrei verið fjölbreyttari, hjá BMW sem öðrum.

Líkast til hafa áðurnefndir hreintrúar-unnendur hins fornfræga þýska bílaframleiðanda beðið þess með öndina í hálsinum að sjá umræddan fjölnotabíl en þeir hafa flestir eflaust varpað öndinni léttar þegar þeir fengu 218 fyrst augum litið, alltént framendann. Eins og við er að búast eru grillnýrun á sínum stað og hönnuðir bílsins hafa gert hárrétt í því að ljá þessum nýjasta meðlimi fjölskyldunnar reffilegan framsvip. Þessi flokkur bíla hefur fá færi á að gera út á hreinan þokka svo það er eins gott að gefa honum fallegt andlit. Og það má tvisturinn eiga skuldlaust – hann er mjög flottur að sjá, að minnsta kosti að framan.

Vel búinn innanstokks

Eðli máls samkvæmt er bíllinn ekki eins sexý þegar kemur að hliðunum og skottinu en það er heldur ekki uppleggið því þetta er jú fjölnotabíll, ekki tvennra dyra GT. Reyndar eru skemmtilegar vindflæðilínur eftir hurðunum endilöngum sem ljá bílnum skemmtilegan svip svo honum er ekki alls varnað.

Snúum okkur að innviðunum. 218 Active Tourer er án nokkurs vafa með þeim best búnu – ef ekki sá best búni – í sínum flokki. Það hjálpar líka upp á sakirnar, séu menn með komplexa gagnvart því að aka bíl í MPV-flokki þegar innviðir eru leðurklæddir með rauðum saumum, svo ekki sé minnst á líningar úr burstuðu áli í mælaborði, á stýri, í gírstangarumgjörð og víðar. Allt virkar óaðfinnanlega vandað og vel frágengið, rammgert og pottþétt.

Þá er ýmis flottur búnaður ökumanninum innan handar við aksturinn sem vakti aðdáun undirritaðs þegar bíllinn var prófaður í sumar sem leið. Fyrir utan veglegan snertiskjá með fyrirtaks bakkmyndavél, þá birtast ýmsar hagnýtar upplýsingar á litlum skjá – eða réttara sagt glerflögu – sem er staðsettur fyrir ofan stýrið í sjónlínu ökumanns. Þar birtast rauntímaupplýsingar um hámarkshraða, aðstæður á vegi framundan og annað í þeim dúr. Alveg einstaklega vel heppnaður búnaður fyrir ökumann og tímaspursmál hvenær þessi upplýsingagjöf verður orðin staðalbúnaður í nýjum bílum almennt. Bíllinn er hár og útsýni var fínt til allra átta og vel fór um ökumann þar sem hann sat undir stýri.

Fínn bíll í akstri

Þeir sem búast við að heyra hið dæmigerða nefmælta urr sem BMW-vélar gefa frá sér verða fyrir nokkrum vonbrigðum því það er hér ekki í þeim mæli sem menn eru ef til vill vanir. En aftur komum við að því að forsendur þessa bíls eru ekki alls kostar þær sömu og hjá BMW almennt. Hann lúrir á ágætis krafti og upptakið er alveg þokkalegt ef maður slær í klárinn af einhverri alvöru. Við mætti búast að jafn hár bíll hlutfallslega væri valtur í beygjum en ekki varð vart við það í svo miklum mæli. Var bíllinn þó prófaður á hlykkjóttum vegum í fjalllendi austurrísku Alpanna, þar sem hver hvínandi u-beygjan rak aðra; voru beygjurnar prófaðar að því marki að farþeginn í framsætinu ríghélt sér og stundi. Engu að síður var stýringin fyrirtak og bíllinn hélt sér prýðilega gegnum átökin. Helst mætti benda á svolítið vindgnauð frá hliðarspeglum og A-bitunum en það var þó bara rétt svo að orð væri á gerandi.

Loks komum við að stórum plús við 218d Active Tourer, og það er hagkvæmni í rekstri. Rétt rúmir 4 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri er aðdáunarverð tala fyrir þennan bíl sem hefur sportlegt lúxusyfirbragð yfir sér, þrátt fyrir svolítið kassalag. Plássið í skottinu er 468 lítrar og með því að styðja á hnapp fara aftursætin niður og þá blasir við geymslurými upp á 1.510 lítra.

Þegar allt hefur verið sett upp á strik er mál til komið að svara stóru spurningunni: er BMW eins og við þekkjum hann í þessum fjölnotabíl?

Svarið er já. Þetta er óhefðbundinn Bimmi en Bimmi engu að síður, traustur í akstri og vel búinn.

Verðið – frá tæpum fimm milljónum – kemur líka á óvart og er fyrirtak fyrir þennan bíl. Bravó BL.

jonagnar@mbl.is