Tvöfalt púst setur ákveðinn svip á afturhluta bílsins en þó hefur hann ekki sama karakter til að bera og framendi bílsins, sem er flottari.
Tvöfalt púst setur ákveðinn svip á afturhluta bílsins en þó hefur hann ekki sama karakter til að bera og framendi bílsins, sem er flottari.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Byrjum þetta á örlítilli sagnfræði fyrir þá sem ekki þekkja til. Hið sérstaka nafn „Shooting Brake“ á rætur að rekja til hestvagna 19. aldar.

Byrjum þetta á örlítilli sagnfræði fyrir þá sem ekki þekkja til. Hið sérstaka nafn „Shooting Brake“ á rætur að rekja til hestvagna 19. aldar. Í þá daga átti heitið við um sérsmíðaða hestvagna, iðulega fyrir þá efnameiri, og voru þeir þá jafnan sérstaklega stórir um sig. Slíkir vagnar voru notaðir í Englandi fyrir hefðarmenn er þeir héldu til veiða við þvögu skotglaðra vina sinna og kom þá stærðin sér vel til að halda utan um byssurnar og hundana sem nota átti við veiðarnar. Á 20. öld færðist svo nafnið yfir á lengri gerðir bíla sem voru mitt á milli hlaðbaks og skutbíls. Hin seinni ár hefur þetta afbrigði orðið æ sjaldséðara en í hinum sífellt stækkandi hafsjó milligerða sem bílamarkaðurinn býður upp á í dag var bara tímaspursmál hvenær „veiðivagninn“ sneri aftur. Takist fleiri framleiðendum jafn vel til og Mercedes-Benz er viðbúið að við sjáum talsvert meira af „Shooting Brake“-týpum á næstu mánuðum og misserum.

Næstum eineggja tvíburar

En þá að máli málanna. CLA-línan frá Mercedes-Benz er einkar vel heppnuð og ekki að furða að fleiri afbrigði hennar séu kynnt til sögunnar. Shooting Brake er sem fyrr sagði mitt á milli hlaðbaks og skutbíls – eigum við að segja „skutbakur“? – og breytingin frá CLA Sedan-bílnum er eiginlega mestmegnis upp á stemninguna því að munurinn á týpunum tveimur er satt að segja óverulegur.

Að innan er allt með sama móti, sem er út af fyrir sig vel. Svert leðurstýrið fer vel í hendi og útlitið á mælaborðinu er skemmtilegt. Lofttúðurnar þrjár eru á sínum stað og það er alltaf fagnaðarefni (óskiljanlegt af hverju þær eru ekki alltaf til staðar í Benzum!) en cruise control-sveifin er óþarflega falin bak við vinstri hluta stýrisins og eiginlega ósýnileg í akstri. Það er vissara að læra að stilla hana til blindandi því það er ógerningur að eiga við hana öðruvísi þegar út á veginn er komið. Eins má velta fyrir sér hvort ekki sé kominn tími á að uppfæra snúningsrofann í miðjustokki sem stýrir aðgerðum á skjánum yfir í snertiskjá? Mercedes-Benz ætti að íhuga það alvarlega því að fólk verður fljótt óþolinmótt ef það þarf sífellt að snúa og smella í stað þess að ýta bara á snertiskjá.

Að utan er bíllinn sömuleiðis keimlíkur Sedan-útgáfunni. Séð beint framan á Shooting Brake og beint aftan á hann þarf að rýna ærlega í til að sjá mun. Undirritaður hefur alltaf verið hrifinn af framsvip CLA, síður af afturendanum, en það er persónubundið eins og gengur. Prófíllinn er loks nokkuð afgerandi. Þar eru aflíðandi þaklínur áberandi og gefa bílnum talsvert dýnamískan svip. Loftflæðilínur á hurðaflekum (eins og á Sedan-týpunni) spila með og bíllinn fær á sig verulega sportlegan blæ fyrir bragðið. Heildarsvipurinn gengur vel upp þegar hann er skoðaður að framan en undirritaður hefði talið hér vera komið tækifæri til að gefa CLA-gerðinni sterkari baksvip. Ég er bara ekki að kaupa þessi afturljós – það vantar eitthvert „úmmmpphff“ í þau. Í það heila er Shooting Brake engu að síður stællegur að sjá og ólíkt rennilegri en skutbílar eru alla jafna.

Þegar vélartölur eru skoðaðar kemur í ljós að hér er ekki verið að stíla inn á þann hóp kaupenda sem vill rífandi start. Vélaraflið er „ekki nema“ 136 hestöfl og það tekur þennan netta skutbak næstum 10 sekúndur að komast í hundraðið. Þegar bíllinn er hins vegar kominn á skrið rennur hann sérdeilis ljúflega; við hundraðið líður hann frábærlega um veginn. Flennistórt glerþak skemmir ekki fyrir upplifuninni og það er unun að krúsa um á honum þessum. En styrkleikarnir felast öðru fremur í hagkvæmni og virðingu fyrir umhverfinu; eyðslan er ekki nema rúmir fjórir lítrar á hundraðið og kolefnisútblásturinn vel skaplegur, ekki síst þegar haft er í huga að hann er rúmlega hálft annað tonn að þyngd. Ekki trúi ég að hefðbundnir skutbílsunnendur horfi sérstaklega til CLA Shooting Brake, því að farangursrýmið er bara þokkalegt og opið á skottinu helst til þröngt.

Umhverfisvænar áherslur

Þegar allt kemur til alls er hér á ferðinni skutbakur þar sem stíll og stællegt útlit eru í öndvegi, allt með formerkjum Mercedes-Benz – og það þýðir að ekki er í kot vísað nema síður sé. Umhverfisvænir eiginleikar eru líka til fyrirmyndar og þeir sem vilja vera grænir í orði sem og á borði geta ekið honum þessum með góðri samvisku. Fyrir þá sem hafa á því ráð skal vitaskuld mælt með CLA AMG 4Matic en það er vitaskuld talsvert önnur saga, bæði hvað varðar kraftinn og verðmiðann; sá kostar 10.780.000 krónur.

Framhaldið verður forvitnilegt að sjá hvort Shooting Brake-skutbakar verða næsta æðið eða aðeins skammlíf tilraun hjá Mercedes-Benz.

jonagnar@mbl.is