Eru íslenskir feður þeir bestu?

Ársæll Már Arnarsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir að feður …
Ársæll Már Arnarsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir að feður skipti máli í uppeldi barna sinna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ársæli Má Arnarssyni, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands, er umhugað um stöðu feðra í íslensku samfélagi. Hann verður með erindi á fræðslufundi Fróðra foreldra í kvöld, miðvikudaginn 16. janúar, klukkan 20:00. Yfirskrift viðburðarins: Er ég að klúðra þessu? vekur athygli. Erindi hans er um íslenska feður – hvort þeir séu bestir í heimi. Eins verður hann með hollráð til foreldra um mikilvægi jákvæðra tengsla milli föður og barns. Fræðslukvöldið fer fram í húsnæði menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Stakkahlíð, 105 Reykjavík.

Ársæll er sjálfur alinn upp innan um mjög barngóða karla sem urðu honum sterkar fyrirmyndir. 

„Ég hef alltaf haft gaman af börnum og byrjaði snemma að vinna með þeim. Vann tíu ár í sumarbúðum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal sem hafði mikil og góð áhrif á mig. Mestu máli skiptir samt að ég á fjögur frábær börn sem eru sífellt að reyna að ala pabba sinn upp.“

Enginn sem hindrar mig nema ég sjálfur

Ársæll hefur sjálfur ekki upplifað neinar hindranir í umhverfinu, menningunni eða frá öðrum tengt því að verja tímanum sínum með eigin börnum.  

„Eina manneskjan sem hefur hindrað mig í að rækja föðurhlutverkið er ég sjálfur. Ég hef ríka tilhneigingu til að taka of mikið að mér og fórna tíma með fjölskyldunni. Og jafnvel þó að ég sé heimakær þá er ég oft fastur fyrir framan vinnutölvuna. Vissulega hef ég oft starfað í krefjandi umhverfi en staðreyndin er sú að í hvert sinn sem ég hef sett mörk í vinnu þá virða það allir möglunarlaust. Ábyrgðin er því alfarið mín.“

Hvað muntu fjalla um í fyrirlestrinum?

„Í dag ætla ég að fjalla um tengsl íslenskra feðra við börnin sín og hvernig við komum út í samanburði við önnur lönd. Svo lauma ég kannski inn einhverjum hollráðum.“

Pabbar skipta máli af því foreldrar skipta máli

Af hverju skipta pabbar máli að þínu mati?

„Fyrst og fremst vegna þess að foreldrar skipta máli. Hvort heldur sem er um að ræða pabba og mömmu, mömmu og mömmu eða pabba og pabba, þá hafa foreldrar gríðarmikil áhrif á börnin sín ævina á enda. Rannsóknir sýna að börn sem eru í miklum samskiptum við báða foreldra koma mun betur út í öllum mælingum á heilsu og líðan. Undantekningin er þó vitanlega foreldrar sem beita andlegu eða líkamlegu ofbeldi.

Feður hafa hins vegar verið nær ósýnilegir í rannsóknum á fjölskylduvirkni, en þó hefur verið sýnt fram á með vísindalegum hætti að jákvæð tengsl föður og barna hafa mikil áhrif á vellíðan barnsins. Auðveld samskipti við föður tengjast góðri tilfinningalegri líðan, sjálfsáliti og góðri líkamsmynd barna og unglinga, einkum og sér í lagi stúlkna. Samskipti við föður virðast nefnilega ekki tengjast nákvæmlega sömu hlutum hjá stelpum og strákum. Erfið samskipti við föður tengjast meira vanlíðan hjá stelpum en hegðunarvandamálum hjá strákum.“

Tengslarof veldur alvarlegum einkennum

Hvað hefurðu rannsakað tengt þessu?

„Ég hef verið að skoða áhrif feðraorlofs á samskipti feðra og barna. Þar erum við að skoða samanburð milli Norðurlandanna yfir langan tíma og af niðurstöðunum er ljóst að feðraorlof hefur haft mjög jákvæð áhrif.“

Hversu næmt er barn fyrir tengslarofi?

„Tengslahugtakið hefur lengi verið miðdepill rannsókna og kenninga í félagsvísindum og mikilvægi heilbrigðra samskipta fyrir heilsu og vellíðan einstaklingsins í gegnum æviskeiðið er óumdeilanlegt.“

Hvaða afleiðingar hefur það og á hvaða þætti í lífinu?

„Tengslarof veldur bæði alvarlegum og bráðum neikvæðum einkennum en hefur líka oftast slæm langtímaáhrif. Það mótar á einhvern hátt öll tengsl einstaklingsins upp frá því.“

Hollráð Ársæls

Áttu hollráð að gefa foreldrum?

„Sýna kærleik: Unglingar þurfa að finna fyrir því með skýrum hætti að foreldrunum sé annt um þá og óski þeim alls hins besta. Foreldrar þurfa einnig að hafa athyglina í lagi þegar þeir eru í samskiptum við unglingana og vera tilbúnir til þess að eyða tíma og orku í að gera hluti fyrir þá og með þeim. Það er líka mikilvægt að gefa sér tíma til að skilja það hvaða manneskju unglingurinn hefur að geyma og hvað skiptir hann máli. Að sjálfsögðu skiptir það höfuðmáli að foreldrar séu áreiðanlegir og traustsins verðir. 

Glæða vöxt: Foreldrar ættu ekki að veigra sér við að gera kröfur til unglinga. Gott líf krefst þess að einstaklingurinn sé sífellt að vaxa, þroskast og verða betri. Á unglingsárunum gegna foreldrar lykilhlutverki í því að hvetja unglingana áfram til þess að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Foreldrar þurfa að hjálpa unglingum til að sjá sína framtíðarmöguleika því framtíðin er oft í þeirra augum flókin og full af hindrunum. Í þessu efni, eins og flestum öðrum, er nauðsynlegt að taka tillit til hugmynda unglinganna og hæfni þeirra um leið og foreldrar reyna að styrkja hvort tveggja. Til að glæða vöxt er einnig mikilvægt að unglingar séu gerðir ábyrgir fyrir því að fara eftir reglum og virða mörk.

Veita stuðning: Foreldrar þurfa að vera duglegir við að hrósa fyrir árangur og stundum einnig fyrir viðleitni. Annað slagið þurfa unglingar hreinlega á hjálp og endurgjöf foreldra sinna að halda til þess að ljúka verkefnum og ná markmiðum sínum. Stöku sinnum verða foreldrar líka að vera tilbúnir til að taka upp hanskann fyrir unglingana. Stuðningurinn felst þó ekki einvörðungu í þessu heldur verða foreldrar einnig að gera sér grein fyrir mikilvægi sínu sem fyrirmyndir.

Deila ákvarðanavaldi: Það skiptir miklu máli að hlustað sé á unglinga og að þeir fái að taka þátt í ákvarðanatöku. Foreldrar eiga að taka unglinga alvarlega og koma fram við þá af sanngirni. Þeir verða að skilja og aðlaga sig þörfum þeirra, áhuga og hæfni.

Auka möguleika: Nauðsynlegt er að sjóndeildarhringur unglinga verði sífellt víðari og þeim sé veittur aðgangur að nýjum tækifærum. Foreldrar gegna lykilhlutverki í að kynna unglingum nýjar upplifanir, hugmyndir og staði. Þeir þurfa einnig að hjálpa þeim að yfirvinna nýjar hindranir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert