Eiga upplýsingar um börn heima á netinu?

Ásdís Auðunsdóttir starfar sem persónuverndarsérfræðingur við áhætturáðgjöf Deloitte. Undanfarið hefur …
Ásdís Auðunsdóttir starfar sem persónuverndarsérfræðingur við áhætturáðgjöf Deloitte. Undanfarið hefur fyrirtækið verið að veita fræðslu í tengslum við net- og samfélagmiðlanotkun foreldra. mbl.is/Aðsend

Ásdís Auðunsdóttir starfar sem persónuverndarsérfræðingur við áhætturáðgjöf Deloitte. Undanfarið hefur fyrirtækið verið að veita fræðslu í tengslum við net- og samfélagmiðlanotkun foreldra. Ástæða þess að Deloitte ákvað að ráðast í undirbúning slíkrar fræðslu var áhugi sem sérfræðingar fundu fyrir hjá starfsmönnum fyrirtækja í kjölfar gildistöku nýrrar persónuverndarlöggjafar. Í verkefnum Deloitte við að aðstoða fyrirtæki við að mæta nýjum kröfum um persónuvernd fengu þeir gjarnan spurningar frá foreldrum á vinnustöðum í tengslum við persónuupplýsingar barna sinna og meðferð þeirra.   

„Það urðu nýverið miklar breytingar á persónuverndarlöggjöf í Evrópu þegar ný persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins tók gildi. Sambærileg löggjöf hefur nú tekið gildi á Íslandi og felur hún m.a. í sér að gerð er ríkari krafa til fyrirtækja þegar kemur að meðferð og vernd persónuupplýsinga. Þegar við fórum á vinnustaði að kynna þessa nýju löggjöf fundum við einnig fyrir áhuga fólks á málefnum er varða börnin þeirra. Við fengum margar spurningar og fórum því að vinna að því setja saman fræðslu um hvað ber að varast fyrir foreldra þegar kemur að netmiðlum og því efni sem þau deila þar um börnin sín.“

Auðveldara að rekja það sem er sagt hér

Hvað ættu foreldrar að hafa í huga?

„Fyrst og fremst þurfa foreldrar að vera meðvituð um það hvenær þeir eru að deila persónuupplýsingum um börnin sín. Augljósasta birtingamynd þessa er án efa þegar foreldrar setja myndir af börnum sínum inn á samfélagsmiðla en það er þó mikilvægt að muna að það eru ýmsar aðrar upplýsingar sem geta verið persónugreinanlegar og viðkvæmar. Að okkar mati er Ísland áhugavert í þessu samhengi enda erum við lítið samfélag og því getur óvarleg meðferð slíkra upplýsinga jafnvel haft meira vægi en ef við byggjum í stærra samfélagi. Það getur ef til vill verið auðveldara að rekja upplýsingar til fólks hér á landi en það er annars staðar.“

Ásdís nefnir sem dæmi að lokaðir Facebook-hópar hafi vakið áhuga þeirra, en þar fara foreldrar stundum mjög frjálslega með upplýsingar um börnin sín. „Fólk virðist fyllast af ákveðinni öryggiskennd ef það er í lokuðum hópi og finnst því auðveldara að deila viðkvæmum upplýsingum þar en annars staðar. Slíkir hópar eru stofnaðir í kringum hin ýmsu hugðarefni, hvort sem það eru uppeldisaðferðir, mataræði, sjúkdómar og svo má lengi telja. Fólk vill börnum sínum allt hið besta og skráir sig í slíka hópa til þess að afla sér upplýsinga, deila reynslu eða spyrja spurninga. Fyrir vikið eru þó nokkrir sem hika ekki við að tjá sig óvarlega um erfiðar sjúkdómsgreiningar, hegðunarbresti og margt fleira sem jafnvel getur talist til viðkvæmra persónuupplýsinga. Inni í svona hópum geta verið þúsundir einstaklinga og oft má leiða líkum að því að barninu, eða öðrum, fyndist ekki þægilegt að deila slíkum upplýsingum um sig með svo stórum hópi af ókunnugu fólki. Eins er erfitt að átta sig á því hver áhrifin af slíkri upplýsingagjöf getur verið.”

Ásdís segir mikilvægt að muna að það er ekkert sem heitir fullur trúnaður í hópum sem þessum. Ef viðkvæmum persónuupplýsingum um börn er deilt inn á svona svæði getur verið auðvelt að eyrnamerkja barninu það um ókomna tíð. „Þá vitum við að það getur verið erfitt að fjarlægja eða stjórna því sem sett er á netið,“ segir hún.

Börnin verða oft meðvitaðri og líður illa

Í dag er erfitt að gera sér fyllilega grein fyrir því hvaða áhrif þetta getur haft á börnin okkar í framtíðinni. „Fæstir foreldrar vilja börnum sínum illt með þessum færslum. Við verðum hins vegar að vera meðvituð um eðli upplýsinga sem við látum frá okkur hverju sinni.“

Hún segir að glögglega megi skynja að yfirvöld erlendis eru farin að gefa þessum málum meiri gaum og leggja meira á sig til þess að vara við hættunni sem getur falist í því að fara óvarlega með persónuupplýsingar. Þá rifjar hún einnig upp að forstjóri Persónuverndar hér á landi hefur varað við því að myndbirtingar og miðlun foreldra á persónuupplýsingum um börn sé farin úr böndunum. „Við verðum vör við dómsmál erlendis þar sem foreldrar eru sektaðir og skikkaðir til þess að fjarlæga ósæmilegt myndefni af börnum sínum af netinu. Þá höfum við einnig heyrt af dómsmálum þar sem uppkomin börn eru jafnvel að draga foreldra sína fyrir dóm með það fyrir augum að fá þau til að fjarlægja efni sem þeir deildu þegar þau voru ung.“

Foreldrar vilja börnum sínum vel en stundum getur verið umhugsunarvert …
Foreldrar vilja börnum sínum vel en stundum getur verið umhugsunarvert hverju maður deilir með öðrum á netinu um börnin sín. mbl.is/Thinkstockphotos

Eins og gefur að skilja hafa börnin sjálf gjarnan skoðun á því efni sem sett er um þau á samfélagsmiðla og segir Ásdís mikilvægt að hlusta og virða slíkar skoðanir og eiga samtöl við barnið, t.d. um myndbirtingar og möguleg áhrif þess að deila upplýsingum á netinu.  

„Rannsóknir sem við kynntum okkur sýna að börn eru oft meðvitaðri en þau voru áður, þó að það sé auðvitað misjafnt hverju sinni. Sumir foreldrar eru alls ekki virkir á samfélagsmiðlum og þá eru þessi áhrif eðlilega lítil á meðan aðrir foreldrar eru mjög virkir á netinu, setja fram myndir af börnum sínum og oft og tíðum langan texta með hverri mynd. Sum börn upplifa þetta sem spennandi á meðan að öðrum finnst þetta óþægilegt. Sem dæmi þá stöldruðum við aðeins við umfjöllun um það þegar foreldrar taka myndir af börnum sínum sofandi og deila þeim. Í viðtölum kom fram að sumum börnum fannst það mjög óþægilegt að uppgötva slíkar myndir. Þegar maður hugsar út í það þá er auðvelt að skilja varnarleysið sem felst í því ef einhver er að taka myndir af manni þegar maður er sofandi og að deila þeim með öðrum án okkar vitundar. Myndum við sjálf vera sátt við slíkar myndbirtingar af okkur? Þetta er spurning sem við verðum að vera dugleg að spyrja okkur. Við verðum að reyna að setja okkur í spor barnanna því þau eru að upplifa raunveruleika sem við þurftum ekki að upplifa og skiljum því kannski ekki alltaf. Þó að okkur finnist myndband eða mynd af barninu að fíflast vera krúttlegt og saklaust þá getur barnið upplifað það öðruvísi.“

Hugsar öðruvísi um það efni sem hún deilir sjálf

Sjálf á Ásdís fimmtán mánaða dreng og segist hún vissulega hugsa öðruvísi um þær upplýsingar sem hún deilir á netinu um hann eftir að hún fór að kafa í þessi málefni. „Eftir að ég fór að kafa í þetta sjálf hef ég hugsað betur út í þá sögu sem ég er að segja af barninu mínu á netinu. Við skiljum alls staðar eftir fótspor og það er ýmislegt sem bendir til þess að þessar upplýsingar verði notaðar í meira magni í framtíðinni eftir því sem greiningartækninni fleygir fram. Við getum ekki séð nákvæmlega fyrir hvernig þetta mun þróast og því er ef til vill betra að deila bara minna en meira og vanda valið á því sem við kjósum að senda frá okkur.”

Ásdís bendir á að ekki séu liðin meira en tíu ár frá því að samfélagsmiðlar festu sig rækilega í sessi hjá almenningi og áhrifanna gætir nú þegar. „Við vitum t.d. að þegar fólk sækir um störf, íbúð eða reynir að komast inn í erfitt nám með fáum plássum er ekki óalgengt að fólk leiti að upplýsingum um viðkomandi á netinu. Fólk er að reyna að átta sig á því hvaða mann viðkomandi umsækjandi hefur að geyma. Það ætti því að vera sjálfsagt að manneskjan fái að skapa sína sögu sjálf á alnetinu, sér í lagi þegar upplýsingaflæðið eykst með degi hverjum.“

Hvaða ráð áttu fyrir foreldra sem hafa áhuga á að gera betur í þessum efnum?

„Ég held að fyrst og fremst sé mikilvægt að vera einfaldlega meðvitaður um þessi mál, fyrir vikið verður maður gagnrýnari á þær upplýsingar sem maður sendir frá sér. Þá held ég að það sé mjög hjálplegt ef foreldar setja sér ákveðin viðmið og skilgreina hvernig efni þau ætla ekki að láta frá sér um barnið. Sem dæmi myndir sem sýna barnið í viðkvæmum eða vandræðalegum aðstæðum, myndir sem sýna barnið nakið, upplýsingar sem fela í sér viðkvæmar persónuupplýsingar eða einfaldlega upplýsingar sem við myndum sjálf ekki vilja deila um okkur. Þá er ef til vill ekki ráðlegt að tengja börnin við okkar eigin pólitísku skoðanir á netinu heldur leyfa þeim að ákveða hvaða stefnu þau taka í lífinu því tengdu. Það er ýmislegt sem breytist með árunum og það ætti að vera þeirra að skrifa sína eigin sögu. Þá teljum við ráðlegt að forðast það að deila myndum af annarra manna börnum á netinu án samþykkis.

Öll frávik sem maður deilir um börnin sín ættu að vera í lágmarki, í það minnsta er gott að skoða hverjum það gerir gagn. Lokaðir hópar á Facebook eru ekki ávísun á að upplýsingarnar leki ekki út, svo síður sé. Það sem við setjum á netið, lifir gjarnan á netinu um ókomna tíð,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert