Bernskan er ekki biðtími

Með hlaðvarpsþættinum Límónutrénu vill Ingibjörg eiga í faglegri umræðu um …
Með hlaðvarpsþættinum Límónutrénu vill Ingibjörg eiga í faglegri umræðu um leikskólamál. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingi­björg Ósk Sig­urðardótt­ir lektor í leik­skóla­fræðum við Há­skóla Íslands seg­ir leik­skólastarf eng­an veg­inn komið á enda­stöð. Ingi­björg brenn­ur fyr­ir því að gera leik­skólastarf enn betra og byrjaði ný­lega með hlaðvarpið Límónu­tréð ásamt sam­starfs­konu sinni á menntavís­inda­sviði Há­skóla Íslands, Svövu Björgu Mörk.

Ingi­björgu og Svövu datt í hug að nýta hlaðvarps­formið til þess að miðla niður­stöðum rann­sókna til leik­skóla­sam­fé­lags­ins og eiga í sam­tali um leik­skóla­mál.

„Við höfðum báðar hugsað um leiðir til að tengja bet­ur á milli há­skóla og leik­skóla. Hluti af starfi há­skóla­kenn­ara er að koma rann­sókn­um sín­um á fram­færi í fræðileg­um tíma­rit­um en okk­ur finnst það ekki al­veg nóg held­ur vilj­um við líka koma þeim áfram til leik­skóla­kenn­ara sem starfa í leik­skól­um,“ seg­ir Ingi­björg um hlaðvarpsþátt­inn og seg­ir að þær hafi langað til að skapa vett­vang fyr­ir fag­lega umræðu um allt milli him­ins og jarðar tengt leik­skóla­mál­um.

Nafnið Límónu­tréð er skír­skot­un í Línu Lang­sokk en Ingi­björg heim­sótti æsku­heim­ili Astridar Lind­gren í Svíþjóð og fannst merki­legt að standa þar fyr­ir fram­an ­tré sem er fyr­ir­mynd trés­ins í sög­un­um um Línu Lang­sokk. Ingi­björg seg­ir Lind­gren hafa verið með ein­staka sýn á bernsk­una.

Mik­il­vægt að viðhalda gildi leiks­ins

Þegar Ingi­björg er spurð út í hvaða verk­efni leik­skól­ar standa frammi fyr­ir í dag stend­ur ekki á svör­um.

„Leik­skól­inn er fyrsta skóla­stigið hér á Íslandi svo áhersl­an er á mennt­un yngstu barn­anna þar sem leik­ur er meg­innáms­leiðin og unnið er í takt við aðal­nám­skrá. Í fyrsta lagi tengj­ast helstu áskor­an­irn­ar sem leik­skól­ar á Íslandi standa frammi fyr­ir í dag vönt­un á fag­fólki, þ.e. menntuðum leik­skóla­kenn­ur­um. Rann­sókn­ir sýna að mik­il­væg­asti þátt­ur­inn varðandi gæði í leik­skóla­starfi er að þar sé fag­menntað fólk. Það snýst auðvitað um það að leik­skóla­kenn­ar­ar hafa sér­fræðiþekk­ingu á námi ungra barna. Það er verið að gera marga hluti til að auka aðsókn í leik­skóla­kenn­ara­nám og starfið hef­ur verið aug­lýst tölu­vert. Eitt af mark­miðum Límónu­trés­ins er að upp­hefja leik­skóla­kenn­ara­starfið. Þetta er frá­bært starf.

Ingibjörg Ósk er lektor í leikskólafræðum.
Ingibjörg Ósk er lektor í leikskólafræðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðrar áskor­an­ir tengj­ast menn­ing­ar­leg­um marg­breyti­leika. Sam­fé­lagið er sí­fellt að verða fjöl­breytt­ara hvað þetta varðar og það sama á við um leik­skóla­sam­fé­lagið. Mik­il­vægt er að líta á þessa þróun sem tæki­færi og að það sé spenn­andi að kynn­ast ólík­um hefðum og siðum og núm­er 1, 2, og 3 að kenna börn­um að lifa í sátt og sam­lyndi þrátt fyr­ir að þau kunni að hafa ólík­an bak­grunn. Það mun skila sér út í sam­fé­lag framtíðar­inn­ar. Sumt full­orðið fólk þarf líka að taka sig á í þess­um efn­um. Á menntavísindasviði er verið að vinna nokk­ur rann­sókn­ar­verk­efni varðandi menn­ing­ar­leg­an marg­breyti­leika í tengsl­um við öll skóla­stig.

Þriðja atriðið teng­ist aukn­um áhersl­um á rétt­indi barna. Barna­sátt­máli Sam­einuðu þjóðanna er hluti af ís­lenskri lög­gjöf síðan 2013 og því mik­il­vægt að hafa rétt­indi barna alltaf að leiðarljósi í mál­efn­um sem þau varðar. Leik­skóla­kenn­ar­ar stoppa gjarn­an við og ígrunda starfið sitt með rétt­indi barna í huga og bæta það sem bet­ur má fara. Rétt­indi barna end­ur­spegl­ast í aðal­nám­skránni þar sem grunnþætt­ir mennt­un­ar tengj­ast t.d. rétt­ind­um barna.

Að lok­um verð ég að nefna áskor­un­ina að viðhalda gildi leiks­ins í leik­skól­an­um. Rann­sókn­ir sýna að ung börn læra best í gegn­um leik­inn þar sem áhersl­an er á frum­kvæði og áhuga­svið barns­ins. Kröf­ur um form­legra nám banka gjarn­an upp á og geta komið úr ýms­um átt­um. En þær aðferðir eiga ekki við í leik­skól­um og mik­il­vægt að leik­skóla­kenn­ar­ar standi vörð um leik­inn og verði trú­ir eig­in fag­mennsku þegar þeir skipu­leggja leik­skóla­starfið.“

Sam­fé­lagið hef­ur breyst

Eru börn eitt­hvað öðru­vísi í dag en fyr­ir 30 árum þegar for­eldr­ar leik­skóla­barna í dag voru að al­ast upp?

„Ég veit ekki hvort það sé rétt að segja að börn­in séu öðru­vísi en sam­fé­lagið sem þau til­heyra er auðvitað mjög breytt og þekk­ing á námi ungra barna hef­ur auk­ist mikið síðustu ára­tugi því rann­sókn­ir á sviðinu hafa auk­ist mikið. Viðhorf til barna hef­ur einnig breyst, nú er litið á börn sem hæfa og virka þegna í sam­fé­lag­inu sem hafa sín rétt­indi. Bernsk­an er nú viður­kennt tíma­bil en ekki biðtími eins og áður var. Eins og all­ir vita lifa börn núna við meiri tækni sem er í sí­felldri þróun. Þetta er hluti af lífi barna í dag en ekki eitt­hvað sem þau aðlag­ast smám sam­an eins og við full­orðna fólkið höf­um gert. Sam­fé­lags­miðlar eru komn­ir til að vera og mik­il­vægt að við leiðbein­um börn­um að nota þá rétt. Að sjá tæki­fær­in sem fylgja tækn­inni en ekki bara horfa á þetta nei­kvæða.“

Hug­mynd­in um leik­skóla hef­ur breyst mjög mikið á stutt­um tíma. Erum við kom­in á enda­stöð eða á þetta fyrsta skóla­stig eft­ir að taka enn meiri breyt­ing­um?

„Við erum alls ekki kom­in á enda­stöð. Leik­skóla­starfið er mjög lif­andi og er í sí­felldri þróun í takt við breyt­ing­ar í sam­fé­lag­inu og nýja þekk­ingu á sviðinu. Við erum dug­leg að fylgj­ast með því sem er að ger­ast í lönd­un­um í kring­um okk­ur og bæði fræðimenn í Há­skól­an­um og leik­skóla­kenn­ar­ar á vett­vangi eru marg­ir í er­lendu sam­starfi í tengsl­um við rann­sókn­ir og þró­un­ar­starf og við sækj­um okk­ur nýja þekk­ingu meðal ann­ars með því að fara á ráðstefn­ur. Ég er til dæm­is ný­kom­in heim af ráðstefnu sem hald­in var í Þessalón­íku á Grikklandi á veg­um sam­tak­anna Europe­an Ear­ly Child­hood Educati­on Rese­arch Associati­on (EECERA), og þar voru um 40 Ís­lend­ing­ar. Ég hlustaði á marg­ar kynn­ing­ar þar sem áhersl­an er á að virkja leik­skóla­kenn­ara og upp­hefja þeirra eig­in radd­ir í leik­skóla­mál­um og um leið efla þá sem fag­menn. Þetta eru meðal ann­ars svo kallaðar star­f­end­a­rann­sókn­ir sem hafa ein­mitt verið að aukast mikið hér­lend­is. Leik­skól­ar eru ekki komn­ir á enda­stöð og við eig­um mikið af öfl­ugu fólki hér á landi sem legg­ur sig fram við að þróa og bæta starfið og skapa nýja þekk­ingu.“

Hvað finnst þér mik­il­vægt að for­eldr­ar leik­skóla­barna hafi í huga í upp­eld­inu?

„Ég er ekki sér­fræðing­ur í for­eldra­hlut­verki en ég hef þekk­ingu á þörf­um barna og mennt­un þeirra og svara því út frá því. Mér finnst mik­il­væg­ast að sýna barn­inu virðingu og kenna því að sýna öðru fólki virðingu. Þá þurfa for­eldr­ar taka til­lit til barn­anna sinna og þeirra skoðana. Að börn­in fái tæki­færi til að hafa eitt­hvað að segja um eigið líf, bæði heima og í leik­skól­an­um. Þetta þýðir samt ekki að börn­in eigi að ráða öllu, en gef­um þeim tæki­færi til að segja sitt og tök­um til­lit til þeirra skoðana. Einnig lang­ar mig að nefna sam­skipti og nánd við börn­in, for­eldr­ar ættu að nýta hvert tæki­færi til að tala við börn­in sín og njóta þess að vera með þeim í hvers­dags­leik­an­um. Þannig læra börn­in á lífið og tengj­ast for­eldr­um sín­um. Mér finnst mjög óþægi­legt þegar ég sé ung börn í kerru með sím­ann fyr­ir fram­an sig, jafn­vel á 17. júní, sem ætti að vera hátíð barn­anna. Þarna missa for­eldr­ar af skemmti­leg­um tæki­fær­um til sam­skipta við börn­in sín. Sama til­finn­ing kem­ur upp þegar ég sé for­eldra sokkna inn í sím­ann sinn og taka ekki eft­ir barn­inu sem er að reyna að tala við þá. Tækn­in er ekki alslæm eins og ég sagði áðan, en hún má ekki koma í staðinn fyr­ir allt hitt góða sem við höf­um.“

Ég myndi segja að sam­skipti séu eitt það mik­il­væg­asta sem við get­um gefið börn­un­um okk­ar. Njót­um þess að vera með börn­un­um og leyf­um þeim að njóta þess að vera með okk­ur. For­eld­ar ættu að leggja sig fram við upp­lifa með börn­un­um sín­um það sem þau eru að upp­lifa, ekki síður hvers­dags­lega hluti eins og það sem er að ger­ast daglegu starfi leik­skól­an­s. Þetta er ekki flókn­ara en það. Ég veit að for­eldr­ar eru oft mjög upp­tekn­ir og þreytt­ir, en þá þarf kannski bara að for­gangsraða og muna tím­ann með börn­un­um. Ég held að all­ir for­eldr­ar vilji börn­un­um sín­um allt það besta og flest­ir standa sig mjög vel.“

Ingi­björg seg­ir að þær Svava séu bara rétt að byrja með hlaðvarpið. Þær taka á móti ábend­ing­um um þátt­inn í gegn­um net­fangið limonutred@gmail.com hvað varðar mál­efni eða viðmæl­end­ur. Fólk er ánægt með að þær hafi ákveðið að hoppa út í djúpu laug­ina og er meðal ann­ars á dag­skránni að tala við starf­andi leik­skóla­kenn­ara, nem­end­ur, rann­sak­end­ur, frum­kvöðla og stjórn­mála­fólk. Ekk­ert er leik­skól­an­um óviðkom­andi.

„Okk­ur finnst bara gam­an að tala um leik­skóla­mál, miðla þeirri umræðu og telj­um það mik­il­vægt,“ seg­ir Ingi­björg um hlaðvarpið.

Hér má finna Límónutréð á SoundCloud. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert