Hélt að allir afar fengju innsetningarathöfn

Jenna Bush Hager.
Jenna Bush Hager. Skjáskot/Instagram

Spjallþáttastjórnandinn Jenna Bush Hager rifjaði upp minningar um innsetningarathöfn afa síns, Bandaríkjaforsetans George W.H. Bush, í viðtali við Sunday Paper Mariu Shriver á dögunum. Þar rifjar hún upp að tvíburasystir hennar Barbara hafi haldið að allir afar fengju innsetningarathöfn eins og afi þeirra. 

Jenna og Barbara voru sjö ára þegar afi þeirra tók við embætti sem forseti Bandaríkjanna og þær systur skildu ekki nákvæmlega hvað var í gangi. „Mín fyrsta minning er að vera við innsetningarathöfn afa míns. Við systurnar vorum litlar, í fyrsta bekk, og við skildum ekki alveg hversu þýðingarmikið þetta var. Við sáum bara einhvern sem við elskuðum sverja embættiseið. Við elskuðum blöðrurnar og skrúðgönguna. Og við vorum frá Texas og bara það að fara til Washington þegar það var kalt og fallegt, það var eins og draumur,“ sagði Jenna. 

George H. W. Bush var afi Jennu Bush Hager.
George H. W. Bush var afi Jennu Bush Hager. MANDEL NGAN

Hún segir afa sinn hafa verið mjög elskulegan og alltaf tilbúinn til að leika við þær og lesa fyrir þær. Þær skildu því ekki að hann væri forseti Bandaríkjanna. 

„Þegar við komum aftur til Texas hélt systir mín að allir afar fengju innsetningarathöfn, við vorum sjö ára. Hún hélt að þetta væri bara eitthvað sem landið okkar gerði til að fagna ömmum og öfum og ég held að það segi meira um hógværð hans og þá staðreynd að hann setti fjölskylduna fyrst,“ sagði Jenna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert