„Margt við móðurhlutverkið sem er fegrað“

Ashley Audrain skrifar um móðurhlutverkið í sinni fyrstu skáldsögu.
Ashley Audrain skrifar um móðurhlutverkið í sinni fyrstu skáldsögu. Ljósmynd/Aðsend

Kanadíski rithöfundurinn Ashley Audrain byrjaði að skrifa Grun þegar sonur hennar var sex mánaða. Bókin er taugatrekkjandi skáldsaga um martröð hverrar móður – að geta ekki elskað barnið sitt. Og um líðan konu sem enginn trúir. Audrain upplifði ekki sama sársauka og Blythe, aðalsöguhetja bókarinnar, en upplifði engu að síður mikla erfiðleika þegar sonur hennar veiktist. 

Grunur fjallar á nístandi hátt um móðurhlutverkið – bæði persónulegu reynsluna en líka væntingar samfélagsins og menningarlegan þrýsting sem fylgir því. Hvers vegna langaði þig að taka þetta efni fyrir?

„Ég hef lengi verið hugfangin af móðurhlutverkinu til dæmis hvernig samfélagið lítur á mæður, hvernig mæður skynja sig sjálfar, hvernig móðurhlutverkið breytir konum og af hverju konur vilja verða mæður. Þess vegna vildi ég gera það að brennidepli fyrstu skáldsögu minnar. Það er svo margt við móðurhlutverkið sem er fegrað þegar við tölum eða skrifum um það. Þegar ég varð sjálf móðir, þá varð mér þetta sérstaklega augljóst í bókum og bíómyndum. Oft er horft fram hjá fæðingum, börnin eru hafin á stall og mamman er vissulega þreytt en hamingjusöm. Ég vildi sýna verri hlið á móðurhlutverkinu því það getur stundum verið skelfilegt, meira að segja þegar þú nýtur þeirra forréttinda að ala börnin þín upp við bestu aðstæður.

Bókin Grunur eftir Ashley Audrain kemur út í íslenskri þýðingu …
Bókin Grunur eftir Ashley Audrain kemur út í íslenskri þýðingu Rögnu Sigurðardóttur. Ljósmynd/Aðsend


Hvaðan kom hugmyndin að Grun?

„Ég byrjaði að skrifa Grun þegar sonur minn var sex mánaða gamall. Hann var heilsuveill svo að við vorum inn og út af sjúkrahúsum um tíma. Þessi reynsla vakti mig til umhugsunar um væntingar til móðurhlutverksins: hvernig verður það? Hvernig á okkur að líða? Hvernig verða börnin okkar? Sem betur fer var reynsla mín á engan hátt lík þeirri sem aðalpersónan mín verður fyrir, en það er engu að síður þessi reynsla sem kveikir hjá mér hugmyndina að Grun. Það er mikill ótti í Grun jafnvel þótt okkur sé sagt að móðurhlutverkið sé það náttúrulegasta í heimi. Sem rithöfundi finnst mér áhugavert að skoða sameiginlegan ótta okkar, kannski til þess að skilja betur minn eigin. Ég held að mörg okkar fái martraðakenndar hugsanir þegar við eigum von á barni eða í uppeldi, burtséð frá kringumstæðum, og mér fannst heillandi að leyfa huganum að fara lengra í þá áttina og velta upp „hvað ef“ aðstæðum í lífi sögupersónanna.“

Blythe upplifir foreldrahlutverkið á allt annan hátt en væntingar hennar höfðu staðið til. Móðurhlutverkið er ekki eins og hún hélt að það yrði og barnið hennar er ekki eins og hún ímyndaði sér að það yrði. Reynsla Blythe er mjög afmörkuð, en telurðu að þessi tilfinning sé algeng meðal foreldra?

„Vinur minn sagði mér eitt sinn að vinkona hans hefði viðurkennt að henni líkaði ekki vel við barnið sitt. Ekki bara út af einu erfiðu tímabili heldur vegna þess að henni virkilega líkaði ekki vel við barnið sitt sem manneskju. Ég hafði aldrei heyrt aðra eins hreinskilni frá móður. Konur eru að verða opinskárri með tilfinningar sínar og um vonbrigði sín í garð móðurhlutverksins. Það eru að vísu ennþá ákveðin umfjöllunarefni sem eru tabú og konur opna sig ekki um, eins og það að sjá eftir því að hafa eignast barn eða það að finna ekki fyrir þeirri væntumþykju sem þær áttu von á gagnvart barninu. Ég hef aldrei hitt móður sem segir að móðurhlutverkið sé nákvæmlega eins og hún bjóst við (eða þá að börnin séu nákvæmlega eins og móðirin hafði séð þau fyrir sér) en samt er umræðan um móðurhlutverkið enn fegruð og klisjukennd með frösum eins og „Þetta er mikilvægasta starf í heimi“ eða „dagarnir eru langir en árin stutt“. Hvað ef maður upplifir þetta sem versta starf í heimi? Hvað ef eitt ár er eins og áratugur? Þessar skoðanir eru ekki hluti af almennu orðræðunni en ég held að margar mæður tengi við þessar tilfinningar.“

Grunur höfðar sérstaklega til mæðra en þetta fjallar líka um hræðslu og kvíða sem flestar konur upplifa og um það hvað gerist þegar það er ekki hlustað á þær eða þeim ekki trúað. Geturðu aðeins fjallað um þetta?

„Enn þann dag í dag er gert lítið úr skoðunum kvenna, þær eru hunsaðar og það sem þær segja er dregið í efa. Við sjáum hvernig samfélagið kemur fram við konur sem tala opinberlega um reynslu sína og hvernig málum kvenna í minnihlutahópum er vísað á bug. Sem betur fer erum við að sjá breytingar á þessu en það fer ekki á milli mála að samfélagsmál hafa áhrif á heimilislíf kvenna, þá sérstaklega kvenna í minnihlutahópum þegar þeirra málefni eru ekki tekin jafn alvarlega. Þegar þeim er ekki trúað eða þær eru hunsaðar sem getur valdið sálrænu áfalli. Hræðslan við að vera stimpluð „klikkuð“ eða „móðursjúk“ veldur þöggun, sérstaklega þar sem er ójafnvægi. Blythe upplifir þessa hræðslu: því sem hún trúir er óhentugt, óþægilegt og hefur hræðilegar afleiðingar. Þannig að fólkið í kringum hana gerir lítið úr hennar reynslu. Það segir að þetta sé hennar vandamál en ekki þeirra. Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á vellíðan hennar.“

Grunur er spennandi.
Grunur er spennandi. Ljósmynd/Aðsend

Grunur er algjör síðuflettir og auðvelt að lesa í einum rykk. Hvernig viðheldurðu spennunni? Eru einhverjar spennusögur eða rithöfundar sem þú lítur upp til?

„Takk. Það sem hafði sennilega mest áhrif á spennuna og hraðann í sögunni er stíllinn minn og það hversu oft ég las yfir handritið. Ég þurfti að nýta tímann vel við skriftirnar og yfirlesturinn þar sem ég þurfti að sinna börnunum mínum líka. Ég hef sjálf dálæti á að lesa stuttar sögur með áhrifaríkum köflum þar sem ég íhuga aðeins það sem ég er að lesa áður en ég fer í næsta kafla. Ég held að það sjáist á uppbyggingu sögunnar. Ég las handritið yfir og endurskrifaði það mjög oft sem hjálpaði mér að setja fókus á hverja einustu sögupersónu og söguþráðinn sjálfan. Ég hef alltaf laðast að sálfræðitryllum sem fjalla um nútímalíf kvenna, þá sérstaklega mæðra. Ég var alveg hugfangin af óhefðbundnum spennusögum sem táningur eins og White Oleander eftir Janet Fitch og The Deep End of the Ocean eftir Jacquelyn Mitchard. Mér finnst best að lesa bækur sem ég get ekki lagt frá mér af því að mig langar svo að finna út hvers vegna eitthvað gerist en á sama tíma vil ég að bókin sé svo sannfærandi að ég njóti hverrar setningar í botn. Nú eru svo margir góðir höfundar sem skrifa svona bækur eins og t.d. Leila Slimani (Barnagæla) og Celeste Ng (Litlir eldar alls staðar) og margir fleiri.“

Hvaða væntingar hefurðu til bókarinnar?

„Ég vona að Grunur sé skáldsaga sem lesendur geti ekki lagt frá sér, bók sem þeir lesi langt fram á nótt. Ég vona einnig að það myndist umræða í kringum bókina: um væntingar til móðurhlutverksins, hvað við skuldum börnum okkar, um áhrif foreldrahlutverksins á hjónabönd og það sem gerist þegar við trúum ekki konum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert