Svona eru reglurnar á nektarströndum

Strandarvörður fylgist með sóldýrkendum á ströndinni í Ajaccio á Korsíku. …
Strandarvörður fylgist með sóldýrkendum á ströndinni í Ajaccio á Korsíku. Á nektarströnd ætti ekki að mæna meira á fólk en venjulega. PASCAL POCHARD-CASABIANCA

Í löndum þar sem veðurfarið er mildara og tepruskapurinn ekki að fara með fólk, má oftar en ekki finna nektarstrandir. Íslenskir ferðalangar gætu jafnvel rambað niður á þannig strönd fyrir slysni, t.d. ef þeir ferðast of langt norður eftir strandlengju Miami Beach, eða villast niður rangan stíg á Cinque Terre á Ítalíu.

Stundum þarf að hafa svolítið fyrir því að finna þessi svæði, og jafnvel leggja á sig stutt ferðalag eins og í Tel Aviv þar sem nektarströndin er langt fyrir norðan aðal-baðstrandasvæðið, en í öðrum tilvikum er nektarsvæðið bara tiltekinn staður á almennri baðströnd eins og í Barcelona þar sem klæðlausir sóldýrkendur halda sig austarlega á aðal-baðströnd borgarinnar.

Hvað á svo blásaklaus Íslendingur að gera þegar hann er kominn á svona strönd, ýmist fyrir slysni eða af yfirlögðu ráði? Er algjörlega nauðsynlegt að fjarlægja sundskýluna? Má glápa eða taka myndir? Og hvað gera karlarnir ef sá litli verður spenntur?

Ekki von á neinni þjónustu

Ferðavefurinn TripSavy minnir á að þar sem nektarstrendur eru oft afskekktar þarf að pakka vandlega fyrir strandferðina. Það verður varla hægt að leigja bekk eða sólhlíf þegar á ströndina er komið, eða kaupa þar hressingu, svo taka þarf þessa hluti með. Ekki má heldur gleyma sólarvörninni, og ágætt að velja sterka sólarvörn enda fær sólin að skína á líkamsparta sem yfirleitt eru faldir og fölir og gætu því brunnið auðveldlega.

Ef enginn er á ferli þykir það góður siður að skilja sundfatnaðinn eftir á áberandi stað, svo fólk sem á leið um ströndina viti að það kann að ganga fram á nakta manneskju.

Ekki ætti að glápa á annað fólk á ströndinni, og þarf biðja um leyfi áður en mynd er tekin. Á þetta vitaskuld líka við um hefðbundnar baðstrandir. Þá er fólk á nektarströnd ekki endilega á höttunum eftir að eignast nýjan vin og því ætti að láta aðra strandgesti í friði, rétt eins og annars staðar.

Vefurinn SmarterTraveler segir að ólíkt því sem óinnvígðir halda þá sækir alls konar fólk nektarstrandir. Sumir eru agalega föngulegir og fínir, en aðrir með frjálslegt vaxtarlag og grá hár hátt og lágt. Þá minnir Condé Nast Traveler á að enginn er skyldugur til að striplast á nektarströnd, og þeir sem ekki vilja bera allan kroppinn mega alveg vera eins mikið klæddir og þeim sýnist.

Náttúrulegt en ekki kynferðislegt

Þá er nektarströndin ekki staður til að stunda kynferðislega iðju. Þeir sem mæta á ströndina með þannig hugarfari eru að misskilja út á hvað það gengur að komast í snertingu við náttúruna klæðalaus. Þarf líka að muna að barnafölskyldur eiga það til að njóta lífsins á nektarströndum, og þarf hegðun annarra gesta að vera í samræmi við það. Ákvæði laganna kunna, vel að merkja, að hljóða þannig að þó að nekt sé leyfileg þá sé ósiðlegt athæfi á almannafæri það ekki.

Svo er það stóra spurningin fyrir karlkyns lesendur: hvað ef litli vinurinn vill láta á sér bera? Að sögn Medium þykir það ekki nógu gott á nektarströndum að láta bera á reistum lim. Er þá bara að liggja á maganum frekar en á bakinu, eða hylja sig með handklæði á meðan, ellegar vaða sjóinn upp að mitti og hugsa um þriðja orkupakkann.

Finna má nektarstrandir um allan heim. Áður en fólk flettir …
Finna má nektarstrandir um allan heim. Áður en fólk flettir sig klæðum á baðströnd ætti að ganga úr skugga um að það sé leyfilegt og engin hætta á sekt eða handtöku. FRED DUFOUR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert