Stórkostlegur suðupottur

Lífið er fiskur hjá Vezo-fólkinu á Madagaskar.
Lífið er fiskur hjá Vezo-fólkinu á Madagaskar. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

„Madagaskar er merkileg fyrir margra hluta sakir. Bæði er náttúran mjög sérstök og svo er eyjan stórkostlegur suðupottur mismunandi menningar. Þarna ægir öllu saman; afrískri, asískri, arabískri og evrópskri menningu,“ segir Þorkell Þorkelsson ljósmyndari sem heimsótti eyjuna í fyrsta sinn fyrr á þessu ári.

„Madagaskar er líka einn af fáum stöðum í heiminum þar sem ekki er allt krökkt af ferðamönnum. Þetta er ekki hættulegt svæði á nokkurn hátt en mjög frumstætt miðað við það sem margir þekkja. Þarna sér maður til dæmis vagnhjól ennþá í stað gúmmídekkja. Menn eru ekki mikið að stressa sig á lífsgæðakapphlaupinu á Madagaskar,“ segir Þorkell, eða Keli eins og hann er jafnan kallaður.

Ströndin er staðurinn til að vera á.
Ströndin er staðurinn til að vera á. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson


Kemst í mikla nálægð

Margir ættbálkar eru á Madagaskar og segir Keli andrúmsloftið vinalegt. „Mín upplifun er sú að íbúar Madagaskar séu vinsamlegir og hjálpsamir; manni líður strax eins og maður sé velkominn. Það er mikið um lítil hótel og litla veitingastaði þarna og fyrir vikið kemst maður í mikla nálægð við fólkið, sem er mjög opið og alveg tilbúið að bjóða manni inn á heimili sín.“

Keli fór vítt og breitt um eyjuna og hitti meðal annars og myndaði fiskimenn af Vezo-ættbálkinum sem búa við vesturströndina. Þeir eru hirðingjar og frægir fyrir að vera bestu fiskimennirnir á Madagaskar. Vezo-menn búa í reyrkofum og láta nútímatækni, eins og við þekkjum hana á Vesturlöndum, ekki þvælast mikið fyrir sér.

Þorkell Þorkelsson hefur ferðast vítt og breitt um heiminn til …
Þorkell Þorkelsson hefur ferðast vítt og breitt um heiminn til að taka myndir. Haraldur Jónasson/Hari


„Það er virkilega gaman að sjá að Vezo-menn halda í lífsstíl sinn og hefðir eins og þeir hafa gert um aldir. Fiskimennirnir fara út á nóttunni og koma inn snemma á morgnana og allt líf fólksins snýst um þetta; þeir gera sérstaklega mikið úr því þegar fiskimennirnir koma að landi með feng dagsins. Allt veltur svo á aflanum hvort menn hafa það gott eða slæmt. Á Madagaskar lifir fólk fyrir daginn í dag,“ segir Keli.

Nánar er rætt við Kela og fleiri af myndum hans birtar í Sunnudagsblaði Morgunblaðins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert